Á næstu mánuðum verða fjórar byggingar sem eru í eigu Akraneskaupstaðar rifnar niður og fjarlægðar.
Stefnt er að því að eitt hús til viðbótar verði einnig rifið og fjarlægt – svo framarlega sem að samkomulag náist við ríkið um rif á því húsi.
Þetta kemur fram í fundargerð skipulags – og umhverfisráðs Akraness.
Á síðasta fundi ráðsins voru útboðsgögn vegna niðurrifs á
Suðurgötu 108, Suðurgötu 124, Dalbraut 8 og Dalbraut 10 samþykkt.
Öll þessi hús eru talin ónýt – m.a.. vegna loftgæðavandamála.
Suðurgata 108 var um langan tíma húsnæði sem AA samtökin voru með sína starfsemi og ljósmyndaklúbburinn Vitinn.
Höfuðustöðvar Veitna á Akranesi voru áður við Dalbraut 10 – sem á sínum tíma var húsnæði Rafveitu Akraness.
Fjöliðjan á Akranesi var með starfsemi sína í húsinu við Dalbraut 8.
Einnig stendur til að rífa húsið við Vesturgötu 62 – sem er í eigu ríkisins. Það hús var á sínum tíma íþróttahús, kennslustofa fyrir smíðar og nú síðast var Búkolla með nytjamarkað í því húsi.