Stórt skref var stigið í tæknivæðingu skólastarfs í Brekkubæjarskóla nýverið. Nemendur á unglingastigi í tveimur elstu bekkjum skólans hafa nú fengið fartölvur til afnota.
Fyrstu tölvurnar bárust í þessari viku og ríkir mikil ánægja hjá nemendum með þessa þróun.
Frá þessu er greint á heimasíðu Brekkubæjarskóla.
Bæjarráð – og bæjarstjórn tóku ákvörðun um að fara í þessa fjárfestingu á haustmánuðum á þessu ári.
Eins og áður segir eru tölvukaupin stórt skref í að tæknivæða skólastarf í Brekkubæjarskóla.
Hver nemandi hefur nú fartölvu til umráða til að vinna verkefni á.
Með þessari tölvuinnleiðingu aukast ennfremur leiðir nemenda til að nálgast og vinna viðfangsefni sín.