Nemendur Grundaskóla hafa á undanförnum árum breytt krónum í gull á góðgerðardegi skólans – sem að þessu sinni fer fram fimmtudaginn 24. nóvember.
Grundaskóli opnar fyrir gesti kl. 11:30 og lýkur góðgerðadeginum kl. 13:00.
Að venju verður fjölbreytilegur varningur sem búinn er til af nemendum Grundaskóla til sölu.
Allur ágóði rennur til styrktar skólastarfi og hjálparstarfi fyrir ungar konur og börn í Malaví, einu af fátækustu ríkjum heims.
Á þessum degi geta gestir rölt á milli sölubása, skoðað skólann, rætt við nemendur og starfsfólk og slakað á inni á sal skólans þar sem hægt er að kaupa smákökur, pylsur og rjúkandi drykki.
Jafnframt bjóða nemendur skólans upp á tónlistaratriði.