Menningarverkefnið Skaginn syngur inn jólin fór af stað með látum þetta árið.
Ólafur Páll Gunnarsson og Hlédís Sveinsdóttir halda utan um verkefnið líkt og undanfarin tvö ár.
Á hverjum degi fram að jólum verður nýr gluggi opnaður í þessu tónlistardagatali sem hefur vakið mikla athygli á undanförnum árum.
Stella María Tinnu og Gautadóttir, nemandi í 1. bekk í Grundaskóla, syngur lagið Snjókorn falla. Lagið er eftir Bob Heatlie og textann gerði Jónatan Garðarsson.
Stella María sýnir í þessu innslagi að hún á framtíðina fyrir sér í að koma fram og skemmta fólki.
Þess má geta að Stella María fetar í fótspor afa síns, Ólafs Páls Gunnarssonar, sem opnaði fyrsta gluggann í Skaginn syngur inn jólin 2022. Faðir Stellu Maríu er hinn þaulreyndi og vinsæli tónlistarmaður, Gauti Þeyr Másson, sem notar sviðsnafnið Emmsjé Gauti.