Nemendur og starfsfólk Grundaskóla hafa á undanförnum tveimur árum verið á ýmsum stöðum í bæjarfélaginu í skólastarfinu.
Húsnæðismál skólans hafa verið mikið til umfjöllunar – en framundan er risavaxið verkefni við allsherjarendurbætur á elstu skólaálmu Grundaskóla (C-álmu). Tilboð í það verkefni verða opnuð á allra næstu dögum.
Lausar kennslustofur við Grundaskóla hafa verið settar upp til þess að brúa bilið þar til að C-álman verður tilbúinn.
Seinkanir hafa verið á þeirri framkvæmd – og lausar kennslustofur sem áttu að vera tilbúnar til notkunar í janúar verða ekki klárar fyrr en í mars.
Reisa á átta lausar kennslustofur á suður hluta skólalóðarinnar – beint á móti Akraneshöllinni. Kennslustofurnar eru smíðaðar erlendis en þessi kennsluaðstaða er ætluð fyrir 6.-7. bekk næstu árin – eða þar til að öllum byggingarframkvæmdum er að fullu lokið við skólann.
Hluti af skólastarfi Grundaskóla mun því færast í frístundamiðstöðina Garðavelli við golfvöllinn.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Grundaskóla.
Hér getur þú séð hvernig Grundaskóli mun líta út eftir endurbæturnar.