Húsið við Vesturgötu 62 á Akranesi hefur verið mikið í umræðunni á Akranesi á undanförum mánuðum.
Bæjaryfirvöld höfðu hug á því að rífa húsið, sem var áður íþróttahús Akurnesinga, en í seinni tíð hefur nytjamarkaðurinn Búkolla verið með starfsstöð þar. Ástand hússins er ekki gott og starfssemi Búkollu var hætt þar sem að húsnæðið uppfyllti ekki kröfur.
Miðbæjarsamtökin Akratorg hafa barist fyrir því að húsið verði ekki rifið – og það samtal virðist hafa borið árangur.
Á síðasta fundi bæjarráðs var tekin sú ákvörðin að setja húsið í sölu á almennum markaði en með tilteknum kvöðum sem m.a. varða m.a. tímalínu endurbóta, rif á viðbyggingu og hugmynda um fyrirhugaða notkun á húsinu.
Í fundargerð bæjarráðs kemur fram að afla þarf heimildar frá framkvæmdasýslu ríkisins vegna þessa en stofnunin fer með eignarhluta ríkisins í húsinu.
Í nóvember á síðasta ári var lagt til í skipulags – og umhverfisráði Akraneskaupstaðar að leita eftir útboðum í niðurrif á fjórum eignum í eigum Akraneskaupstaðar – og var Vesturgata eitt af þeim húsum.
Húsið við Vesturgötu 62 var byggt sem íþróttahús og var því áður fyrr kallað leikfimishúsið við Vesturgötu. Húsið er stórmerkilegt í sögu bæjarins, sennilega eitt það merkilegasta, því það var fyrsta íþróttamannvirkið sem Akurnesingar reistu og höfðu mikið fyrir því.