Karlalið ÍA landaði góðum sigri gegn Þór á Akureyri í viðureign þeirra sem fram fór s.l. föstudag í næst efstu deild Íslandsmótsins í körfuknattleik. Þar hafði ÍA betur og landaði öruggum 97-67 sigri.
Hinn ungi og efnilegi leikmaður ÍA, Þórður Freyr Jónsson, fór á kostum í leiknum og skoraði alls 26 stig, en hann skoraði alls 8 þriggja stiga körfur úr 15 tilraunum.
Lucien Thomas Christofis skoraði 20 stig fyrir ÍA og Anders Gabriel Adersteg var með 14 stig og 11 fráköst. Miðherjinn stæðilegi, Jalen David Dupree, kom ekkert við sögu hjá ÍA þessum leik gegn botnliði Þórs.
Með sigrinum er ÍA samt sem áður í næst neðsta sæti deildarinnar með 12 stig eftir 19 umferðir, 6 sigurleikir og 13 tapleikir. Þór er á botni deildarinnar með 2 stig.
ÍA á enn möguleika á að koma sér í hóp 5 efstu liða deildarinnar og þar með sæti í úrslitakeppninni.
Keppnisfyrirkomulagið í 1. deild karla er með þeim hætti að efsta lið deildarinnar tryggir sér sæti í efstu deild á næsta tímabili.
Liðin í sætum 2-5 keppa í úrslitakeppni um eitt laust sæti.
Það eru fimm leikir eftir hjá ÍA í deildinni.
Næsti leikur er gegn Sindra frá Höfn í Hornafirði á heimavelli á morgun mánudaginn 13. febrúar.
Hamar frá Hveragerði kemur í heimsókn föstudaginn 17. febrúar.
ÍA leikur gegn liði Selfoss á útivelli þann 24. febrúar og á heimavelli gegn Ármenningum þann 3. mars.
Í lokaumferðinni mætir ÍA liði Fjölnis á útivelli 6. mars.