Söngleikjagerð hefur verið eitt af helstu einkennum Grundaskóla á Akranesi undanfarna tvo áratugi.
Þar hafa Flosi Einarsson, Einar Viðarsson og Gunnar Sturla Hervarsson átt stærstan þátt í því að skrifa söguna og semja tónlistina.
Nemendur skólans hafa síðan tekið við keflinu með frábærum sýningum þar sem að hæfileikar þeirra á ýmsum sviðum eru dregnir fram í dagsljósið.
Á undanförnum misserum hafa nemendur í 10. bekk Grundaskóla unnið að gerð heimildarmyndar um söngleikina sem sýndir hafa verið í skólanum.
Í myndinni er m.a fjallað um ferlið í heild sinni og markmiðin með þessum verkefnum, áhrifin á nemendur og starfsfólk, rifjað upp skemmtilegar minningar og velt fyrir sér mikilvægi listrænna verkefna í íslensku skólakerfi.
Heimildarmyndin verður frumsýnd í kvöld, miðvikudaginn 26. apríl í Bíóhöllinni og er frumsýningin afrakstur mikillar vinnu síðan í byrjun árs.
Fjöldi fólks kom að gerð myndarinnar, bæði nemendur og starfsfólk ásamt fyrrum nemendum skólans sem tóku þátt í söngleikjunum á einhvern hátt síðustu tvo áratugi.
Fyrsti söngleikurinn sem sýndur var í Grundaskóla var Frelsi sýnt, en höfundar þess voru Flosi Einarsson og Gunnar Sturla Hervarsson. Einar Viðarsson bættist í hópinn þegar Hunangsflugur og villikettir komust á fjalirnar.
Draumaleit var svo samstarfsverkefni við skóla á Ítalíu, í Svþjóð og Tyrklandi. Sá söngleikur var sýndur í hverju landi fyrir sig og loks var sameiginleg sýning haldin í Stokkhólmi í desember 2007.
Enn fremur hafa litið dagsins ljós söngleikirnir Vítahringur (2009), Nornaveiðar (2012) og Úlfur, úlfur (2015).