„Mótið var í heildina ágætt en hefði líka getað verið mun betra, ég á allavega nóg inni,“ segir Valdís Þóra Jónsdóttir, ein besta golfkona Íslands. Atvinnukylfingurinn úr Leyni er einu skrefi frá því að tryggja sér keppnisrétt á sterkustu atvinnumótaröð Evrópu, LET.
Valdís Þóra endaði í 10.-11. sæti á úrtökumóti í Marokkó sem lauk um s.l. helgi en hún hefur keppni á lokaúrtökumótinu 17. desember – en það fer einnig fram í Marokkó. Samtals lék Valdís Þóra hringina fjóra á fyrra úrtökumótinu á +12 (76-70-79-75). Alls komust 30 efstu áfram á lokaúrtökumótið en alls var keppt á fjórum stöðum á fyrra stigi úrtökumótsins.
Valdís er að leika í fjórða sinn á úrtökumótinu fyrir LET en hún hefur undanfarin þrjú ár leikið á LET Access mótaröðinni sem er næst sterkasta atvinnumótaröð kvenna í Evrópu.
Karl Ómar Karlsson mun aðstoða Valdísi á lokaúrtökumótinu en hann var þjálfari hennar í mörg á hér á Akranesi á meðan hann var íþróttastjóri Leynis. Karl Ómar er íþróttastjóri Keilis í Hafnarfirði en hann hefur starfað sem íþróttakennari á Akranesi í mörg ár.
Eins og áður segir hefst lokaúrtökumótið 17. desember en þar verða leiknir fjórir hringir og lýkur því 22. desember. Þrjátíu efstu keppendurnir fá keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni.