Steinunn Inga Óttarsdóttir, skólameistari FVA flutti ávarp við brautskráningu nemenda – sem fram fór föstudaginn 19. maí s.l.
Steinunn Inga fékk aðstoð frá gervigreindar spjallmenninu ChatGPT þegar hún skrifaði útskriftarræðuna – sem er áhugaverð nálgun og afraksturinn má sjá hér fyrir neðan.
Kæru útskriftarnemar, mitt frábæra starfsfólk og góðir gestir. Til hamingju með daginn!
Það er komið að síðasta deginum ykkar hér í Fjölbraut. Þó er svo ósköp stutt síðan þið voruð alveg glæný að byrja í skólanum. Þið eruð svolítið eftirminnilegur hópur í mínum huga því ég var líka glæný þegar þið flest genguð inn í skólann haustið 2020. Sum ykkar eru sérlega eftirminnileg, t.d. eftir samstarf í nemendafélaginu og í hinni frábæru leiksýningu sem sett var upp í vor af miklum metnaði, aðrir eftir sambúð á heimavistinni, alls konar þras og bras um útivistartíma og umgengni s.l. þrjú ár, En öll eruð þið eftirminnileg í mínum huga, m.a. vegna þess að stór hluti af ykkar námi hér fyrstu tvö árin einkenndist af eins konar neyðarstigi vegna hins bráðsmitandi veirusjúkdóms úr leðurblökuvæng í Kína sem breiddist
út við minnstu snertingu, minnsta andardrátt.
Engan óraði fyrir því sem dundi hér yfir. Eins og allir aðrir í heiminum þurftu kennarar og nemendur á öllum skólastigum að bregðast bæði snarlega og margvíslega við þessum faraldri sem geisaði svona hratt og lengi. Við í Fjölbraut gerðum það eins vel og mögulegt var við þessar aðstæður. Það reyndi sannarlega á okkur öll og breytti í raun sýn okkar á tilveruna. Margt sem við höfum talið sjálfgefið, er það ekki. Að mæta í skólann, mæta í
vinnuna, hitta vini sína og fjölskyldu, taka þátt í íþróttum og félagslífi. Allt bannað!
Margvísleg erindi komu frá nemendum inn á borð til skólameistara á þessum tíma sem voru því miður fljótafgreidd:
Megum við halda ball? Nei, það er samkomubann…
Megum við frumsýna Dýrin í Hálsaskógi sem við erum búin að æfa vikum saman? Nei það
mega bara 30 koma saman
Megum við sitja saman í mötuneytinu? Nei
En megum við … Nei
En nú er þetta allt að baki, félagslíf og skólabragur hefur verið hressilega rifið upp og þið hafið sko sýnt hvað í ykkur býr.
En áhrif sóttvarnaráðstafana sem þurfti að grípa til á þessum tíma sjást nú í skólastarfi, bæði í FVA og á landsvísu. Fleiri en áður missa móðinn í náminu og nær það nú líka til nemenda sem áður hefðu tæplega talist í áhættuhópi. Það hefur dregið úr félagslegri þátttöku – ábyrgð og skuldbinding gagnvart námi fer líka minnkandi. Hér er sannarlega áskorun fyrir alla sem að skólastarfi koma.
Það er sameiginlegt verkefni kennara og nemenda að horfast í augu við þetta, halda áfram að rífa upp vinnugleðina, áhugann og glæða námið lífi, fjöri og tilgangi. Og efla metnað og ábyrgð. Það ætti ekki að vera fyrsta val nemanda, sem er sett fyrir verkefni að vinna, að nappa einhverju af netinu, nota það óbreytt og gagnrýnislaust og skila til kennara sem eigin
höfundarverki. Það eru ekki ásættanleg vinnubrögð, það er ekki nám, það er ekki menntun.
Lágmarkskrafa er að vinna úr efninu, vega það og meta, tengja og yfirfæra og skila síðan eigin afurð eða niðurstöðu byggða á gögnunum og geta heimilda. Að nappa efni eftir aðra er ekkert nýtt, ritstuldur hefur verið stundaður frá því áður en höfundarréttur var fundinn upp en nú er þetta orðið enn auðveldara en nokkru sinni áður. Gervigreind getur græjað allt á
örskotsstundu.
Skiptar skoðanir eru um hvort gervigreind á borð við spjallmennið ChatGPT sé undratæki sem létti okkur lífið eða ógni tilvist og afkomu mannkyns. Flestir eru hins vegar sammála um að allt sé að breytast hratt, svo hratt að það er núna verið að vinna í því að hægja á þróuninni. Því er spáð að gervigreind komi til með að leysa af hólmi 300 milljón störf á
heimsvísu á næstu árum. Annað hvort verður vinnuvikan stytt hressilega eða ákveðin störf verða ekki lengur til.
Ég hafði varla heyrt minnst á gervigreind fyrr en í lok síðasta árs þótt hún eigi sögulega séð rætur að rekja til a.m.k. 1950 og nú er hún alls staðar í umræðunni. Hvaða fyrirbæri er þetta? Og hver erum við andspænis einhverri vitund í stafrænu formi sem getur orðið þúsund sinnum „greindari“ en við? Er allt mögulegt fyrir þessa ofurvitund? Það örlar á ótta
um framtíð mannkynsins, því bæði er um vitund að ræða sem okkur er framandi og svo gæti það gerst að hagsmunir hennar, eins og hún skilgreinir þá sjálf, fari ekki endilega saman við hagsmuni mannkynsins í öllum tilvikum. Þá erum við að tala um td stríð og fríð, frelsi og
lýðræði.
En það er sagt að gervigreindin viti allt og þekki alla. Ég gaf mig á tal við hana, sló inn spurningu: Who is Steinunn Inga Óttarsdóttir? Ekki stóð á svarinu, það liðu innan við 3 sekúndur: I don’t have any information on Steinunn Inga, she has no social presence.
No social presence! Er ég ekki til? Ég er ósýnileg, algjört nóboddí. Er líf mitt einskis virði? Svaka skellur. Eða hvað, er það kannski bara ágætt? Er ekki bara fínt að upplýsingar um mig séu ekki aðgengilegar fyrir hvern sem er hvenær sem er? Og ég geti lifað mínu einkalífi í friði og spekt. Þetta er stór spurning og fer algjörlega eftir viðhorfi hvers og eins hvert svarið er.
Allt gerist nú mjög hratt í þróun þessa fyrirbæris (sem greinilega veit ekki allt og getur skjöplast eins og öðrum). Sem ég sat með autt blað í tölvunni á dögunum, komin í stellingar með að semja útskriftarræðu sem mundi slá í gegn laust hugmynd niður í hausinn á mér.
Getur gervigreind kannski skrifað útskriftarræðuna fyrir mig?
Það getur hún og hljómar svo:
Það er með mikilli ánægju sem ég stend hér í dag til að fagna með ykkur. Þetta er minnisverð stund sem markar endalok skólagöngu hér, og þið lögðuð hart að ykkur. Það er heiður að fá að vera með ykkur í dag og ég óska hverju og einu ykkar til hamingju. Brautskráning er tími ígrundunar, að horfa um öxl en líka til framtíðar. Þið eruð að stíga inn í næsta kafla lífsins og ég hvet ykkur til að taka ykkur tíma til að ígrunda ferðalag ykkar hingað til. Hugsið um áskoranir og hindranir sem þið hafið mætt, árangurinn sem þið hafið náð. Munið lexíur sem þið hafið lært, vináttubönd sem hafa myndast, og reynsluna sem hefur gert ykkur að þeim manneskjum, sem þið nú eruð. En um leið og þið ígrundið fortíðina minni ég ykkur á að horfa
til framtíðar með von og bjartsýni að leiðarljósi. Þið útskrifist héðan með þekkingu og hæfni og fróðleiksfýsn sem mun nýtast í hverju því sem þið takið ykkur fyrir hendur. Þið getið haft áhrif, skapað ykkar eigin örlög og lagt ykkar af mörkum til samfélagsins. Og sem þið haldið áfram ykkar ferðalagi, hvet ég ykkur til að vera áfram forvitin, aldrei hætta að læra og vera alltaf opin fyrir nýrri reynslu. Lífið er fullt af óvæntum atburðum og þið vitið aldrei hvert það leiðir. Ef þið fylgið ástríðu ykkar og lífsgildum og leggið hart að ykkur, efast ég ekki um að þið munir áorka því sem þið viljið. Loks vil ég segja að við erum öll mjög stolt af ykkur. Þið hafið náð árangri og getið borið höfuðið hátt. Ég óska ykkur enn og aftur til hamingju, þið
eruð að uppskera og þetta er ykkar dagur. Óska ykkur alls hins besta í hverju því sem þið takið ykkur fyrir hendur og hlakka til að fá fregnir af afrekum ykkar framvegis. Takk.
Þetta er útskriftarræða gervigreindarinnar. Ekki sem verst og ekki lengi gert. En hún er ekki mitt sköpunarverk, hún er augljóslega samsett úr þúsund öðrum ræðum. Það er ljóst að brautskráningarræður framtíðarinnar verða annaðhvort lagðar af, eða þær verða allar eins –
nema við reynum að hanga á þeim snefil af sköpunarkrafti og persónuleika sem við þó höfum. Þar skilur enn á milli okkar og gervigreindarinnar, hvað sem síðar verður.
Kæru útskriftarnemar, í júní n.k. eru fjörutíu ár síðan ég lauk framhaldsskóla á Akureyri, þeim fagra bæ. Netið var þá ekki til, einhver sagði að það væri bara bóla! Kannski sama týpan sem sagði að Oprah Winfrey hefði ekki útlit fyrir sjónvarp, að Disney litli hefði ekkert
hugmyndaflug og Michael Jordan gæti aldrei orðið körfuboltamaður. Ekki vissi ég baun hvað mig langaði að taka mér fyrir hendur þar sem ég stóð þarna með stúdentshúfuna hans pabba á hausnum og Lennon-gleraugun á nefinu í hvítum heimasaumuðum jakka árið 1983.
Ég hefði alveg þegið einhver heilræði.
Þið fáið þau í staðinn:
Eina sem er öruggt er að allt breytist. Það er líka víst að það verða afleiðingar. Nám og kennsluhættir breyttust td í faraldrinum og ekki útséð með afleiðingarnar. Störf breytast og hverfa og ný verða til. Þið eruð hluti af þessari þróun, þið hafið gengið í gegnum breytingar og glímt við afleiðingar og þroskast svona líka fallega!
Tileinkið ykkur nýjungar en látið þær ekki yfirtaka hugsun ykkar. Gervigreindin er ekki bóla en hún veit heldur ekki allt þótt hún geti púslað ýmsu saman. Notið hana til að létta ykkur nám og störf en ekki til að láta hana koma í staðinn fyrir sjálfstæða hugsun og persónuleika,
frumleika, eigin pælingar og uppgötvun.
Að lokum: Mótlæti tekur enda, erfiðleikar styrkja okkur, litlir sigrar efla sjálfstraust og þor til að takast á við hlutina. Eins og þið hafið svo sannarlega sýnt.
Ég óska ykkur öllum til hamingju með daginn!