Karlalið ÍA landaði sínum þriðja sigri í röð í miklum markaleik á Selfossi í kvöld í Lengjudeild Íslandsmótsins, næst efstu deildar.
Alls voru skoruð 7 mörk í leiknum og skoruðu Skagamenn fyrstu þrjú mörk leiksins.
Arnór Smárason skoraði fyrsta mark leiksins á 19. mínútu, Indriði Áki Þorláksson bætti við öðru marki á 26. mínútu og Steinar Þorsteinsson kom ÍA í 3-0 á 41. mínútu. Þannig var staðan í hálfleik 3:0.
Heimamenn voru sókndjarfir í síðari hálfeik. Á 57. mínútu skoraði Ingvi Rafn Óskarsson fyrsta mark Selfyssinga í leiknum. Hlynur Sævar Jónsson, leikmaður ÍA, skoraði sjálfsmark á 65. mínútu.
Framherjinn sterki Viktor Jónsson kom ÍA í tveggja marka forystu með góðu skallamarki á 85. mínútu. Staðan 4-2.
Varnarmaðurinn Þorsteinn Aron Antonsson kom spennu í leikinn með marki á 89. mínútu, staðan 4-3, en það dugði ekki til og Skagamenn lönduðu þremur stigum á útivelli.
Með sigrinum fór ÍA upp í 3. sæti deildarinnar. Með 4 sigra, 2 jafntefli og 2 töp.
Myndasyrpa frá leiknum er í vinnslu – uppfært hér fyrir neðan.