Okkar kona er í toppbaráttunni – áfram Valdís

Valdís Þóra Jónsdóttir, atvinnukylfingur úr Leyni á Akranesi, er einu skrefi frá því að komast á sterkustu atvinnumótaröð Evrópu. Hún lék frábært golf í dag eða á 65 höggum og er hún samtals á -11 þegar einn hringur er eftir.  Þetta er í fjórða sinn sem Valdís Þóra keppir á þessu úrtökumóti og hún er að ná sínum besta árangri frá upphafi.

Valdís keppir í Marrakech í Marokkó en leikið er á tveimur völlum á lokastiginu. Það er mikið í húfi því 30 efstu fá keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni og þeir sem enda í sætum 31.-60. fá takmarkaðann keppnisrétt.

Skor keppenda verður uppfært á heimasíðu LET og greint verður frá gangi mála á Twittersíðu GSÍ eftir bestu getu. Valdís hefur leik kl. 10 á laugardaginn á Amelkis vellinum og fer svo yfir á Samanah á sunnudaginn klukkan 9.


„Síðustu dagar hafa verið fínir hérna í Marokkó, ég slæ vel og púttin eru góð. Ég er með aðstoðarmann héðan frá Marokkó sem þekkir völlinn vel og er fínn í því að lesa flatirnar með mér. Flatirnar eru mjög hraðar eða 12-13 á stimpmetra, mikið landslag í þeim. Það er ekki mikill munur á völlunum,“ sagði Valdís Þóra við golf.is.

Keppnisfyrirkomulagið er með þeim hætti að 115 keppendur taka þátt og eru leiknir alls fimm 18 holu hringir á fimm keppnisdögum. Á lokahringnum fá 70 efstu taka þátt. Keppt er á Amelkis og Samanah völlunum á þessu móti. Lokahringurinn fer fram á Samanah-vellinum.

Þetta er fimmta árið í röð þar sem lokaúrtökumótið fer fram á þessum stað.

Keppendurnir á lokaúrtökumótinu eru frá 31 þjóð, flestir frá Frakklandi eða 19, þar á eftir koma Englendingar með 17 keppendur og Spánn 13. Indland er með 7 keppendur og Svíar er með 8 leikmenn en Ísland er með Valdísí Þóru.

Yngsti keppandinn er 16 ára en hún heitir Madelene Stavnar og er frá Noregi. Elsti keppandinn er Sophie Sandolo en hún er fertug.

Valdís Þóra, sem er 27 ára gömul, komst áfram á lokaúrtökumótið með því að enda í 10.-11. sæti á fyrra stigi úrtökumótsins sem fram fór í síðustu viku í Marokkó. Hún lék hringina fjóra á +12 (76-70-79-75). Þetta er í fjórða sinn sem Valdís Þóra tekur þátt á úrtökumótinu fyrir LET Evrópumótaröðina en hún hefur leikið á LET Access mótaröðinni undanfarin þrjú ár.