Fjölmennur hópur stuðningsmanna ÍA í knattspyrnu hefur á undanförnum árum og áratugum verið með öflugt starf sem tengist því að tippa á leiki í ensku knattspyrnunni – í gegnum Íslenskar getraunir, 1×2.
Alls eru 75 virkir félagsmenn í getraunahópnum og hittu þeir á þann stóra í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Þar var hópurinn með 13 rétta leiki af alls 13. 100% árangur og fékk hópurinn 4,5 milljónir kr.
Í tilkynningu um afrekið á heimasíðu Íslenskra getrauna segir Guðlaugur Gunnarsson talmaður hópsins.
„Við festum leik 1 og leik 13 og spáðum því að Newcastle og WBA myndu vinna sína leiki sem gekk eftir. Síðan skárum við niður raðir og notuðum til þess kerfi Getrauna á vefnum og niðurstaðan varð 13 réttir.“
Markmiðið með getraunastarfinu er að styðja myndarlega við starfið hjá ÍA.
Í fyrra spilaði hver og einn fyrir um það bil 300 krónur á viku að frádregnum vinningum. Mér sýnist allt stefna í að við komum út í plús á þessu keppnistímabili,“ segir Gunnlaugur ennfremur.