Íþróttasal og kjallara var lokað s.l. fimmtudag í þróttahúsinu við Vesturgötu mun aðgerðin hafa gríðarlega mikil áhrif á starf aðildarfélaga ÍA.
Íþróttakennsla í Brekkubæjarskóla og Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi verður einnig með takmörkunum á meðan framkvæmdum stendur.
Verkís gerði umfangsmikla úttekt á húsnæðinu sem framkvæmd var í september 2023 og í kjölfarið var þessum rýmum lokað vegna loftgæða vandamála. Ákvörðunin var tekin með skömmum fyrirvara. Framundan eru viðamiklar framkvæmdir – og er gert ráð fyrir að hægt verði að opna á ný í ágúst á næsta ári.
Opið verður í fimleikahúsi og Þekju, ásamt því að hægt verður að nýta búningsklefa og suður anddyri við fimleikahús.
Í svari frá Íþróttabandalagi Akraness kemur fram að íþróttahúsið við Jaðarsbakka taki við sem aðal íþróttahús Akraness á þessum tíma.
Keilusalurinn í íþróttahúsinu við Vesturgötu verður einnig lokaður og er verið að leita lausna með aðgengi í eina keilusal Íslands sem er opinn þessa stundina – í Egilshöll.
Allar íþróttagreinar þurfa að búa við skert aðgengi að tímum í íþróttahúsinu við Jaðarsbakka.
Þær íþróttagreinar sem eru ekki innan raða ÍA þurfa alveg að víkja og má þar nefna útbreiðsluverkefni HSÍ um handbolta fyrir yngri iðkendur. Bresi, blakfélag Íþróttabandalags Akraness, er ekki með barna – og unglingastarf og fær því ekki tíma til að iðkunar.
ÍA mun forgangsraða tímum eftir stærð félag, og umfangi barna – og unglingastarfs.
Heimaleikir Körfuknattleiksfélags ÍA verða á Jaðarsbakka en liðið leikur í næst efstu deild Íslandsmótsins í vetur.
Eins og áður segir eru miklar framkvæmdir framundan. Endurnýja þarf allt þakið að innanverðu. Með því að setja þar upp rakavarnarlag. Víða má sjá ummerki um gamla leka í lofti. Endurnýja þarf gaflvegg og rakaskemmt efni í áhorfendastúku og breyta þrifum.
Úttektin leiddi í ljós ófullnægjandi rakavarnarlag í þaki, ónýtt byggingarefni í neðri hluta þaks, gaflveggjum og í veggjum ofan við áhorfendastúku. Einnig kemur fram að loftræsingu salarins er ábótavant.