Eins og fram hefur komið náði Valdís Þóra Jónsdóttir, kylfingur úr Golfklúbbnum Leyni hér á Akranesi, frábærum árangri þegar hún tryggði sér keppnisrétt á næsta tímabili á sterkustu atvinnumótaröð Evrópu, LET Evrópumótaröðinni.
Valdís er þar með komin í hóp útvaldra kylfinga á Íslandi sem hafa náð slíkum árangri en Valdís er þriðja íslenska konan sem nær alla leið inn á mótaröð þeirra bestu í Evrópu. Fjórir kylfingar hafa náð alla leið og tveir þeirra eru úr Leyni, en Birgir Leifur Hafþórsson er eini karlkylfingurinn sem hefur náð inn á Evrópumótaröðina.
Ólöf María Jónsdóttir (2004), Ólafía Þórunn Kristinsdóttir (2014) og Valdís Þóra Jónsdóttir (2015) hafa allar farið í gegnum nálaraugað og tryggt sér keppnisrétt á meðal þeirra bestu í Evrópu.
Valdís endaði í öðru sæti á lokaúrtökumótinu á -15 höggum undir pari vallar en þetta er besti árangur sem Íslendingur hefur náð á lokaúrtökumóti fyrir sterkustu mótaröð Evrópu.
Valdís var að taka þátt í fjórða sinn á ferlinum á þessu lokaúrtökumóti og er þetta í fyrsta sinn sem hún kemst í gegnum síuna.
Við hér á skagafrettir.is óskum Valdísi hjartanlega til hamingju með árangurinn og öllum þeim sem komu að þessu. Vel gert.