Það var mikil stemning á leik ÍA og KR í næst efstu deild Íslandsmótsins í körfuknattleik karla sem fram fór í kvöld, föstudaginn 8. desember.
Fjölmenni var á leiknum sem var jafn og spennandi. ÍA og KR hafa ekki mæst í Íslandsmótsleik í rúmlega 23 ár – en fyrsti opinberi keppnisleikur ÍA í körfubolta var gegn KR árið 1975.
Leikmenn ÍA og KR sem léku þann leik voru heiðursgestir á leiknum og voru þeir kynntir til sögunnar í hálfleik.
Skagamenn voru með yfirhöndina gegn KR í þrjá leikhluta – þar sem að leikmenn ÍA létu mikið að sér kveða í vörn og sókn.
Staðan var 23-13 fyrir ÍA eftir 1. leikhluta og staðan var 39-37 í hálfleik. Skagamenn náðu 11 stiga forskot í lok þriðja leikhluta, 67-56 fyrir ÍA.
Í fjórða og síðasta leikhluta tóku reynslumiklir leikmenn KR til sinna ráða. KR skoraði 12 stig gegn engu stigi Skagamanna og komust tveimur stigum yfir þegar rúmlega 3 mínútur lifðu af leiknum.
KR-ingar sigldu sigrinum í höfn með öguðum leik – lokatölur 84-77 fyrir KR.
Srdan Stojanovic skoraði 22 stig fyrir ÍA og tók 5 fráköst, Þórður Freyr Jónsson skorði 20 stig, Lucien Christofis skoraði 11 stig og Aamondae Coleman var með 10 stig og 10 fráköst.