Fín veðurspá fyrir Þorrablótsröðina

Það styttist í eina af stærstu hátíðum ársins 2017 en miðasala á Þorrablót Skagamanna hefst kl. 9.00 stundvíslega föstudaginn 6. janúar. Veðurspáin er fín fyrir þá sem ætla að mæta snemma í röðina fyrir miðasöluna og mikil tilhlökkun ríkir hjá þeim sem hafa staðið í ströngu við að undirbúa þetta kvöld.

„Það má alveg búast við því að tæplega 700 miðar verði seldir á fyrstu klukkstundinni líkt og undanfarin ár,“ segir Sævar Freyr Þráinsson sem er einn af fjölmörgum sjálfboðaliðum úr Club 71 sem stendur á bak við þetta verkefni.

Miðasalan fer fram í Íslandsbanka og segir Sævar að Magnús Brandsson útibússtjóri og starfsfólk Íslandsbanka muni sjá vel um þá sem mæta í röðina á föstudaginnn.

 

Miðasalan fer fram í Íslandsbanka

„Þetta er í sjöunda sinn Þorrablót Skagamanna fer fram. Og ég get fullyrt að það verður eitt það glæsilegasta frá upphafi. Árgangur 1976 mun sjá um annáll Akurnesinga sem hefur svo sannarlega vakið athygli. Akraneskaupstaður mun velja Skagamann ársins og maturinn er frá Galito – og þar ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi.“ 

Skemmtidagskrá kvöldsins verður þétt og veislustjórarnir verða sjónvarpsstjörnurnar Auddi Blö og Steindi Jr.

„Við viljum ekki ljóstra öllu upp núna en ég get alveg lofað að skemmtidagskráin er frábær og margir sem koma þar með atriði. Það er gríðarlega gaman að taka þátt í þessu og ég veit að Skagamenn verða vel skipulagðir á föstudaginn þegar miðasalan hefst. Þar er hægt að panta borð þegar búið er að greiða fyrir miðana og einnig er hægt að senda tölvupóst á [email protected] vegna borðapantanna,“ segir Sævar Þór sem vekur athygli á að Þorrablótið sé haldið til styrktar íþróttafélögum á Akranesi og Björgunarfélagi Akraness.

„Í fyrra voru styrkir veittir fyrir um 3 milljónir kr. Og þannig var það einnig árið þar á undan. Mörg félög sem eru að vinna með okkur í sjálfboðaliðastarfi á þessu kvöldi fá afraksturinn. Fyrir mörg þeirra skiptir ávinningurinn sem þau fá frá þessu kvöldi öllu máli í rekstrinum.“

Ný borð og stólar verða vígð á Þorrablótinu í ár en Club71 fjárfesti útbúnaði frá GS Import á Akranesi fyrir um 700 manns. „Það verður gríðarleg breyting í undirbúningnum að vera með þessa hluti á einum stað, og til framtíðar léttir þetta mikið undirbúninginn. Það ríkir mikil tilhlökkun hjá okkur fyrir þessu kvöldi og ég hlakka mikið til,“ sagði Sævar Freyr að lokum við Skagafréttir.
15826536_598417973693572_7966916147147327076_n