Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir var í gær skipuð ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Þórdís er 29 ára gömul og fædd og uppalinn á Akranesi. Hún er yngsta konan frá upphafi til að gegna ráðherrastöðu hér á landi . Í viðtali við visir.is í gær þakkar hún Bjarna Benediktssyni formanni flokksins og þingflokknum fyrir það traust sem henni sé sýnt.
Þórdís Kolbrún er lögfræðingur og var kjörinn á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn í síðustu Alþingiskosningum. Hún hefur mikla reynslu af störfum í ráðuneyti en hún starfaði sem aðstoðamaður Ólafar Nordal í innanríkisráðuneytinu.
„Ég hef auðvitað góða reynslu úr ráðuneytinu með Ólöfu. Það að hafa verið í læri hjá henni er ekki lítils virði og ég tek það með mér. Svo reynir maður auðvitað bara að nýta þá mannkosti sem maður hefur,” segir Þórdís í viðtali við visir.is.
Samkvæmt okkar bestu upplýsingum er Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjórði Skagamaðurinn sem er skipaður ráðherra. Guðbjartur Hannesson var skipaður heilbrigðis -og velferðarráðaherra í september árið 2010, en áður hafði Ingibjörg Pálmadóttir verið heilbrigðisráðherra á árunum 1995-2000. Hinn eini sanni Jón Gunnlaugsson benti okkur hér á skagafrettir.is á að sóknarpresturinn á Akranesi, Þorsteinn Briem, var ráðherra á árunum 1932-1933.