Úthlutun úr Minningarsjóði Guðbjarts Hannessonar

Hallgerður Freyja Þorvaldsdóttir og Harpa Karen Antonsdóttir hlutu nú í vikunni viðurkenningu úr Minningarsjóði Guðbjarts Hannessonar fyrir framúrskarandi lokaverkefni í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands. Ritgerð Hallgerðar og Hörpu Karenar ber heitið Stundirnar í tóminu – Gildi tómstunda fyrir einstaklinga sem greinast með krabbamein.

Þetta kemur fram í tilkynningu: 

 

Verðlaunahafarnir ásamt Jóni Atla Benediktssyni rektor sem veitti verðlaunin, Ársæli Arnarssyni prófessor og fulltrúa minningarsjóðsins og Steingerði Kristjánsdóttur aðjúnkt og leiðbeinanda verkefnisins.

Í umsögn dómnefndar segir:

„Ritgerðin byggir á fjölbreyttum og vönduðum heimildum sem varpa ljósi á og styðja við umfjöllunarefni þeirra sem er mikilvægi tómstunda og félagslegs stuðnings fyrir fólk í krabbameinsmeðferð. Rannsóknarspurningar eru vel ígrundaðar, settar fram af innsæi en þær voru: ,,Hvert er gildi skipulags tómstundastarfs fyrir fólk sem greinist með krabbamein?” annars vegar og hins vegar ,,Hvert er gildi skipulags tómstundastarfs fyrir andlega líðan/félagslegan stuðning eftir krabbameinsgreiningu? Niðurstöður eru settar fram með skýrum hætti en einnig komast þær að þeirri sjálfstæðu niðurstöðu að á heilbrigðisstofnunum, s.s. sjúkrahúsum þar sem krabbameinsmeðferð fer fram, starfi tómstundaráðgjafi í teymi þeirra sem þjónusta krabbameinsgreinda einstaklinga. Með það fyrir augum setja þær fram tillögu um framkvæmd og reifa bæði ávinning og áskoranir tillögunnar. Þessi tillaga hvílir á styrkum stoðum þeirrar umfjöllunar sem þær leggja upp með, bæði í fræðilegu sem og notendavænu samhengi.Ritgerð þeirra sem hér er til umfjöllunar hefur afar mikilvægt hagnýtt gildi þar sem þær sýna fram má með sannfærandi hætti hversu mikilvægt starf tómstunda- og félagsmálafræðingar geta lagt af mörkum í þjónustu við krabbameinsgreinda einstaklinga.“

Minningarsjóður Guðbjarts Hannessonar veitir verðlaun við brautskráningu Tómstunda- og félagsmálafræðinga á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Verðlaunin eru ætluð einstaklingum er ljúka námi með fyrstu einkunn og skila framúrskarandi lokaverkefni við brautskráningu HÍ. Fyrst var úthlutað úr sjóðnum í júní 2019.

Guðbjartur eða Gutti eins og hann var ávallt kallaður af samstarfsmönnum sínum var fæddur á Akranesi 3. Júní 1950. Foreldrar hans voru Hannes Þjóðbjörnsson og Ólafía Rannveig Jóhannesdóttir.

Guðbjartur lauk kennaraprófi KÍ 1971, tómstundakennaraprófi frá Seminariet for Fritidspædagoger í Vanløse í Danmörku 1978, framhaldsnámi í skólastjórn KHÍ 1995 og meistaraprófi frá Kennaradeild Lundúnaháskóla (Institute of Education, University of London) 2005.

Guðbjartur var lengst af starfsævi sinnar farsæll skólastjóri Grundaskóla á Akranesi en gegndi einnig ýmsum trúnaðarstörfum fyrir bæjarstjórn Akraness sem bæjarfulltrúi, formaður bæjarráðs og forseti bæjarstjórnar.

Hann gegndi lengi trúnaðarstörfum fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga og fjölmörg fyrirtæki, félög og stofnanir. Hann var alþingismaður fyrir Norðvesturkjördæmi 2007-2015. Gengdi ábyrgðarmiklum hlutverkum innan ríkisstjórnar Íslands. Hann var forseti alþingis 2009, félags-, tryggingamála- og heilbrigðisráðherra 2010 og velferðarráðherra 2011–2013. Hann lést langt fyrir aldur fram árið 2015.

Guðbjartur var mjög virkur í margvíslegri félagsstarfsemi. Hann var erindreki Bandalags íslenskra skáta og alla tíð virkur félagi í Skátafélagi Akraness. Gutti var einnig virkur þátttakandi í íþróttahreyfingunni og sinnti fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir Íþróttabandalag Akraness.

Í menntamálum kom Guðbjartur víða við og var virkur í fagþróun kennara og skólastjórnenda. Gutti var einn af þeim fyrstu sem sóttu sér formlega menntun sem tómstunda- og frístundafræðingur. Hann var frumkvöðull í að tengja félags- og tómstundamenntun við aðra uppeldismenntun. Sem kennari og skólastjóri lagði hann ávallt áherslu á góða líðan nemenda og mikilvægi þess að vinna skipulega með tómstundir í skólastarfinu. Í þeirri viðleitni sinni stóð hann m.a. að útgáfu fræðsluefnis um öflugt foreldrastarf og fræðsluefni um tómstundir og félagsstarf. Uppeldis- tómstunda- og menntamálum sýndi hann ávallt mikinn áhuga og umhyggju og þeirri hugsjón er þessari viðurkenningu ætlað að halda á lofti.