Birgir útnefndur sem bæjarlistamaður Akraness 2024

Birgir Þórisson var í dag útnefndur sem Bæjarlistamaður Akraness fyrir árið 2024. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Akraneskaupstað.

 Borgnesingurinn Birgir hefur verið viðloðinn tónlist nær allt sitt líf,“ segir m.a.í tilkynningu sem er að finna á vef Akraneskaupstaðar. 

„Hann stundaði nám við Tónlistarskóla Borgarfjarðar frá unga aldri bæði á trompet hjá Ólafi Flosasyni og á píanó, fyrst hjá Birnu Þorsteinsdóttur og seinna hjá Zsuzsönnu Budai og útskrifaðist hann með framhaldsstig í píanóleik frá Tónlistarskóla Borgarfjarðar 2008. Birgir hefur einnig lokið miðprófi í rytmískum píanóleik frá tónlistarskóla FÍH og einleikaraprófi B.Mus. í klassískum píanóleik frá Listaháskóla Íslands.

 

Birgir hefur brugðið sér í mörg hlutverk innan Tónlistarskólans á Akranesi. Hann spilaði með lúðrasveit Akraness og tók nokkra tónfræðiáfanga innan skólans, en varð seinna starfsmaður skólans, eða frá árinu 2011 til 2023. Hann starfaði sem kennari, deildarstjóri og síðast sem aðstoðarskólastjóri.

 

Hann hefur verið meðleikari með ýmsum kórum, t.d. Samkór Mýramanna, Karlakórnum Söngbræðrum, Kvennakórnum Ymur og Kór Akraneskirkju, auk þess að hafa spilað með söngvurum við ýmis tækifæri og tekið þátt í stærri uppfærslum. Birgir hefur frá upphafi verið einn af aðalhlekkjum verkefnisins Skaginn syngur inn jólin, sem hefur fært okkur skagamönnum ómælda gleði undanfarin ár. Birgir var tónlistarstjóri Söngkeppni framhaldsskólanna 2018-19 og nú við leiksýninguna FROST sem er í sýningu í Þjóðleikhúsinu. En leið hans lá þangað í gegnum það að tónlistarstyra m.a. uppfærslum NFFA á Gauragangi og Grease og svo uppsetningu Skagaleikflokksins á Litlu Hryllingsbúðinni.

 

Birgir hefur verið í nokkrum hljómsveitum og er meðlimur í vinsælustu stuðhljómsveit landsins, Stuðlabandinu og sæmir það honum vel enda mikill stuðmaður og gleðigjafi!

 

Birgir er jákvæður einstaklingur með glaðlegt viðmót, hann er þægilegur í samskiptum og opinn og hvetjandi við nemendur og samstarfsfólk sitt. Hann er metnaðarfullur og vandvirkur í þeim verkefnum sem hann tekur að sér, -og þau eru eins fram hefur komið fjölmörg og fjölbreytt. Birgir er flinkur og fjölhæfur tónlistarmaður, sem gott og dýrmætt er að eiga að hér á Akranesi.

 

Birgir Þórisson – hjartanlega til hamingju með titilinn bæjarlistamaður Akraness.„å