„Við erum búnir að undirbúa þetta í tæplega eitt ár og núna loksins er komið að því að við getum boðið gestum Galito upp á sushi á matseðlinum eftir kl. 17 á daginn,“ segir Hilmar Ólafsson matreiðslumaður og einn af eigendum veitastaðarins Galito. Frá og með föstudeginum 13. janúar geta sushi-aðdáendur á Akranesi gengið þessum vinsæla mat á matseðli Galito og er einnig hægt að kaupa tvennskonar bakka til þess þess að fara með heim.
Hilmar og Sigurjón Ingi Úlfarsson meðeigandi hans í Galito hafa á undanförnum vikum verið í strangri þjálfun í sushigerðinni. „Við fáum aðstoð frá þessum sérfræðingi á næstu vikum áfram og hann mun útskrifa okkur þegar hann verður sáttur með útkomuna,“ segir Hilmar og leggur áherslu á að mikil vinna liggi að baki sushimatargerðinni
„Ég held að fólk gerii sér ekki grein fyrir því hversu erfitt þetta er, en við verðum búnir að ná tökum á þessu þegar við opnum,“ bætir Hilmar við.
Metnaðurinn hefur aukist með árunum og við höfum lagt mikið á okkur til að verða betri.
Sigurjón segir að það sé krefjandi að bæta sushi-gerðinni ofaná allt sem er í gangi alla daga á Galito. „ Við erum í mjög mörgu á hverjum einasta degi. Gerum matarbakka að morgni fyrir hádegið, hádegismaturinn á Galito er einnig stórt verkefni, og undirbúa kvöldið. Síðan bætast oft við veislur ofaní þétta dagskrá. Það þarf að hafa vel snarar hendur til að þetta gangi upp. Ekki má gleyma pizzugerðinni og undirbúningnum fyrir það á hverjum degi, skera niður áleggið, setja sósur í box, brjóta saman pizzukassana,“ segir Sigurjón. Auk hans og Hilmar eru tvær konur sem eru menntaðir matreiðslumenn sem starfa á Galito og tveir nemar eru þar við störf.
Alls eru um 22 sem starfa á Galito og þar af 13 í „pizzugenginu“ eins og Hilmar orðar það. Galito er því frekar stór vinnustaður á Akranesi. „Nanna Sigurðardóttir og Stefanía Sunna Róbertsdóttir eru með okkur í þessu og nemarnir eru Anton Elí Ingason, Matthías Ingi Sævarsson. Þetta er samhentur hópur og það er gaman að vinna með þeim. Það er mikið um að vera í hádeginu hjá okkur alla daga. Við höfum náð að afla okkur ákveðna virðingu varðandi góðan heimilismat á sanngjörnu verði í hádeginu. Það komast um 80 manns í salinn hjá okkur en við höfum verið með allt að 100 manna veislur hérna,“ segir Hilmar.
Aukning í ferðamannastraumnum til Íslands gerir vart við sig á Akranesi og eru þeir sérstaklega ánægðir með pizzurnar.
„Í fyrsta sinn frá því að við opnuðum verðum við vör við erlenda ferðamenn yfir vetrartímann. Sumarið 2016 var mjög gott, ég geri ráð fyrir að það hafi verið um 30% aukning í heimsóknum erlendra ferðamanna til okkar,“ segir Hilmar. Sigurjón segir að erlendir gestir panti sér öðruvísi mat en þeir íslensku.
Í fyrsta sinn frá því að við opnuðum verðum við vör við erlenda ferðamenn yfir vetrartímann
„Útlendingarnir panta mikið af forréttum og dýrari steikur. Þeir eru einnig mikið í pizzunum. Margir þeira hafa sagt að þetta sé besta pizzan sem þeir hafi smakkað. Við vitum ekki alveg hver galdurinn er en líklega er þetta ástríðan við matargerðina eða kannski eru pizzurnar bara svona vondar í útlöndum,“ segir Sigurjón.
Hilmar var inntur eftir því hvort hann gæti skoti á það hversu margir borði á hverjum degi mat frá Galito og hann varð að hugsa sig lengi um áður en hann gat svarað.
„Ég hef aldrei reynt að telja þetta þannig, en ef ég á að skjóta gróflega á þetta þá eru aldrei undir 200 manns sem borða mat frá okkur á dag. Það er varlega áætlað því oftar eru þeir mun fleiri. Þá erum við ekki að taka veislurnar með í reikninginn. Það er alltaf nóg að gera í veisluþjónustunni og við erum líka að þjónusta þá sem það vilja í Reykjavík. Það spyrst bara út því við erum ekkert að auglýsa á Reykjavíkursvæðinu.“
Á meðan viðtalið var tekið var boðið upp á dýrindis sushi sem sjá má á myndunum í þessari grein. Þeir félagarnir á Galito ætla að fara varlega í sakirnar á fyrstu vikunum í sushi framleiðslunni og sjá til hvernig þetta þróast.
„Það verða fimm gerðir af „klassískum“ rúllum í boði og tvær gerðir af bökkum til að taka með, 8 bita og 12 bita. Við munum síðan meta hvernig þetta þróast og að sjálfsögðu þarf að vera eftirspurn eftir þessum mat til þess að við getum haldið áfram að þróa þetta hjá okkur. Við fjárfestum í góðum tækjum fyrir sushigerðina og ætlum að breyta eldhúsinu aðeins til þess að koma þess fyrir. Við trúum á þetta og erum sannfærðir um að Skagamenn og aðrir gestir taki þessu fagnandi. Það eru margar vinnustundir á bak við sushi-gerðina og aðalmálið er að hafa ferskt hráefni og góð grjón. Grjónin eru einn mikilvægasti þátturinn, það má ekki ofsjóða þau, og það þarf líka rétt magna af ediki. Leggjum mikið í þetta til þess að þetta verði eins gott og mögulegt er,“ segir Hilmar.
Vinnudagarnir á Galito eru langir og það styttist í eina stærstu helgi ársins þegar um 900 manns verða í þorramat laugardaginn 21. janúar. Hilmar segir að það sé mikill hugur í þeim á Galito og árið 2017 einkennist af endurmenntun og nýjum hugmyndum.
„Metnaðurinn hefur aukist með árunum og við höfum lagt mikið á okkur til að verða betri. Ég er í meistaranámi, og er að vinna með margar hugmyndir ásamt Sigurjóni. Við erum ekki mettir og ætlum okkur meira,“ sagði Hilmar að lokum.
Hér má sjá nokkrar færslur á fésbókarsíðu Galito þar sem viðskiptavinir fagna því að sushi verði á boðstólum á matseðlinum.