Ný hugmynd um hótel við golfvöllinn rædd í skipulags – og umhverfisráði

Merkjaklöpp ehf. hefur lýst yfir áhuga að reisa hótel við golfvöllinn á Akranesi. Fyrirspurn félagsins þess efnis til skipulagsfulltrúa Akraness var tekin fyrir á fundi skipulags – og umhverfisráðs þann 19. ágúst s.l. 

Alexander Eiríksson og Guðmundur Sveinn Einarsson, kynntu hugmyndir félagsins um hótel sem væri með tengingu við frístundamiðstöðina Garðavelli

Samkvæmt heimildum Skagafrétta er gert ráð fyrir byggingu úr timbri og hótelið væri með 40-60 herbergi. Staðsetningin væri á svipuðum stað og í fyrri hugmyndum um byggingu á þessu svæði – eða meðfram 1. braut vallarins. 

Í júlí árið 2021 voru kynntar breytingar á aðalskipulagi þar sem að gert var ráð fyrir hótelbyggingu á þessu svæði. 

Í breytingunni var gert ráð fyrir hótelbyggingu sem mun rísa norðan við Garðavelli, frístundamiðstöðina, sem er við golfvöllinn.

Á þeim tíma var áhugi hjá Snorra Hjaltasyni byggingaverktaka og fjárfesti, að reisa hótel á þessu svæði. Snorri hefur m.a. reist hótel í Borgarnesi sem ber nafnið Hótel Vesturland í dag en hét áður B59.