Ólafur Adolfsson býður sig fram til forystu í NV-kjördæmi

Kosið verður til Alþingis í lok nóvember á þessu ári. Í Norðvesturkjördæmi er ljóst að töluverðar breytingar verða á framboðslista Sjálfstæðisflokksins – miðað við listann sem boðinn var fram í síðustu kosningum árið 2021. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, sem leiddi listann í NV-kjördæmi í síðustu kosningum hefur ákveðið að bjóða sig fram á lista flokksins í Reykjavík.

Ólafur Adolfsson, fyrrum bæjarstjórnarmaður Sjálfstæðisflokksins á Akransei og eigandi Apóteks Vesturlands, tilkynnti í gær að hann hafi áhuga á að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í NV-kjördæmi í komandi kosningum. Ólafur greindi frá ákvörðun sinni á samfélagsmiðlum í gær með eftirfarandi tilkynningu. 

„Kæru vinir og félagar
Ég hef ákveðið að gefa kost á mér til forystu fyrir Sjálfstæðisflokkinn í hinu víðfeðma Norðvesturkjördæmi í komandi Alþingiskosningum.
Ég hlakka til að takast á við þær áskoranir sem framundan eru með öflugum hópi Sjálfstæðisfólks.“