Aðsend grein: 

Fyrir um einu og hálfu ári undirritaði bæjarstjórn Akraness viljayfirlýsingu um byggingu hótels á Jaðarsbökkum. Blásið var til undirbúnings með stefnumótun í ferðamálum og yfirlýsingum um alvöru samráð við íbúa. Í eitt og hálft ár hefur bæjarstjórnin verið að væflast með málið og barmar sér yfir því að eldra fólk andmæli hugmyndum um að skerða íþróttasvæðið og breyta aðgengi fólks að Langasandi, svæði sem hefur verið fyrir almenning í ómunatíð. Viðbáran er að þetta sé fyrir framtíðina og unga fólkið, en ekki fortíðina (lesist: eldra fólk sem engu vill breyta).  Og svo er það auðvitað sú mara sem hvílir á bæjarfulltrúum að bjarga bæjarlífinu og atvinnulífinu með hóteli, en til þess að sá draumur verði að veruleika þurfi að færa fórnir. Fórnirnar eru að skerða íþróttasvæðið, snúa fótboltavellinum, æfingasvæðinu og breyta verulega aðgengi almennings að Jaðarsbökkum og Langasandi.

Það er ansi margt sem  í ferli málsins heyrir til undarlegrar stjórnsýslu og ekki hafa síðustu 18 mánuðir verið til þess að auka tiltrú á samskiptum bæjarins við almenning eða virðingu við íþróttahreyfinguna á Akranesi.  Nú hefur skipulagsnefnd – eftir 18 mánaða þrotlausa umhugsun, ákveðið að Akranesvelli verði snúið um 90° þannig að hann liggi meðfram Akraneshöll að Langasandi.  Þetta leggur nefndin og bæjarstjórn til, þrátt fyrir að mælingar beri með sér að þessi aðgerð sé í senn dýr kostur, mjög þröngur og óhagkvæmur til lengri tíma. Syðri endi vallarins verður nánast ofan á göngustíg meðfram Langasandi, en vera kann að einhverjum detti í hug að skapa aukið rými með því að fara með landauka út á Langasandinn.  

Þessi ákvörðun umhverfis- og skipulagsnefndar (sem hefur greinilega ekki verið með umhverfishattinn á kollinum að þessu sinni), sem samþykkt var 9-0 í bæjarstjórn, er í fullkominni andstöðu við samþykkt stjórnar Knattspyrnufélags ÍA. Stjórn KFÍA hefur fært skilmerkileg rök fyrir því að það sé óráð að snúa vellinum. Það er því brotið það blað í sögu bæjarins að virða að vettugi hagsmuni íþróttahreyfingarinnar – og er því þó haldið fram að Akranes sé íþróttabær. Svo má nefna þá sögu að landið á Jaðarsbökkum var afhent bænum í þágu íþróttahreyfingarinnar á Akranesi árið 1934 og að sjálfboðaliðar hafi byggt þar knattspyrnuvöll, sem hefur verið þungamiðja ómetanlegrar sögu í tæp 90 ár. En það er víst fortíð, en ekki framtíð glaums og gleði. 

Nú er það svo, að bygging hótels er verðugt verkefni og vissulega má nýta svæðið vestan knattspyrnuvallarins betur – en fyrr má nú rota en dauðrota. Gangi verkefni bæjarstjórnar eftir verða breytingarnar á Jaðarsbökkum meiri en nokkurn órar fyrir – á kostnað bæjarbúa og íþróttahreyfingarinnar. Okkur finnst a.m.k. mikilvægt að vekja athygli bæjarbúa á málinu – ekki síst ef bæjarstjórn er alvara að fylgja hugmyndum sínum eftir.

Það er mikill skaði að hugmyndir um byggingu hótels þurfi að skarast við hagsmuni íþróttahreyfingarinnar og afleitt að tekist hafi að búa til ágreining um verkefni sem ætti að vera hægt að leysa á farsælan hátt.  Bæjarstjórn er í raun að varpa ábyrgðinni á því hvort hótel verði byggt eða ekki yfir á íþróttahreyfinguna, því heyrst hefur að einhverjir bæjarfulltrúar hafi látið þau orð falla að ef vellinum verði ekki snúið þá verði engar framkvæmdir við íþróttamannvirkin á Akranesvelli næstu 10 – 15 ár. Fyrirætlan bæjarstjórnar er verulegt inngrip í Jaðarsbakkasvæðið, sem er alfarið á ábyrgð kjörinna fulltrúa. Von um aura í fjárvana bæjarsjóð má ekki verða leiðarljós að atlögu gegn íþróttasvæðinu á Jaðarsbökkum, íþróttasögunni og sameign bæjarbúa á Langasandi. 

Andrés Ólafsson, Benedikt Valtýsson, Davíð Kristjánsson, Einar Guðleifsson, Guðjón Þórðarson, Gunnar Sigurðsson, Gunnlaugur Jónsson, Hjörtur Hjartarson, Hörður Helgason, Jón Gunnlaugsson, Jón Runólfsson, Karl Þórðarson, Kristján Sveinsson, Ólafur Þórðarson, Pétur Óðinsson, Sigurður Halldórsson, Steinn Mar Helgason, Sturlaugur Haraldsson, Þröstur Stefánsson.