Karlalið ÍA landaði góðum sigri gegn Sindra frá Höfn í Hornafirði í gær þegar liðin áttust við í 12. umferð Íslandsmótsins í körfuknattleik í næst efstu deild. Skagamenn voru betri aðilinn frá upphafi til enda – lokatölur 87-80.
ÍA er í 2.-4. sæti deildarinnar með 18 stig, 9 sigra og 3 tapleiki. Ármann er í efsta sæti með 20 stig en Sindri, Hamar frá Hveragerði og ÍA eru með 18 stig. Framundan er spennandi barátta um efstu sætin í deildarkeppninni hjá ÍA. Efsta liðið í lok deildarkeppninnar fer beint upp í Subway-deildina á næsta tímabili en liðin í sætum 2-9 leika í úrslitakeppni um eitt sæti til viðbótar.
Kristófer Már Gíslason var stigahæstur í liði ÍA með 20 stig en hann tók einnig 11 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Kristófer er að skjóta boltanum á myndinni sem er frá Körfuknattleiksfélagi Akraness.
Kinyon Hodges skoraði 17 stig, tók 7 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Victor Baffutto skoraði 15 stig og tók 10 fráköst en hann er frákastahæsti leikmaður deildarinnar með rúmlega 13 fráköst að meðaltali. Tölfræði liðsins er í heild sinni hér fyrir neðan.
ÍA á eftir að leika 10 leiki fram til 3. mars þegar lokaumferðin fer fram. Framundan eru spennandi leikir en næsti leikur ÍA er þann 17. janúar á heimavelli gegn KFG.