Halldór Jónsson sjálfboðaliði ársins 2024 hjá ÍA

Halldór Friðgeir Jónsson er sjálfboðaliði ársins 2024 hjá ÍA. Halldór fékk viðurkenninguna þann 6. janúar s.l. þegar kjörinu á Íþróttamanneskju ÍA var lýst. 

Halldór hefur unnið ómetanlegt starf fyrir íþróttahreyfinguna á Akranesi og þá sérstaklega Golfklúbbinn Leyni. Halldór var lengi í fremstu röð þjálfara hjá yngri flokkum ÍA í knattspyrnu – en hann hefur tekið að sér ýmis verkefni hjá Golfklúbbnum Leyni á undanförnum árautugum. 

Í færslu á fésbókarsíðu Golfklúbbsins Leynis segir: 

„Halldór Friðgeir fagnaði 80 ára afmæli þann 29. júní 2021 síðastliðinn, og var á sama tíma útnefndur heiðursfélagi GL fyrir ómetanlegt starf í þágu félagsins.

Það trúir því enginn að kappinn sé orðinn 80 ára, því aldurinn ber hann mjög vel og slær aldrei slöku við hvort sem er í ýmsum sjálfboðaliðaverkefnum eða ýmissi útiveru og heilsurækt.

Til gamans má segja frá því að samstarfsmenn hans á Garðavelli hafa dregið í efa að kennitala hans standist – því þeim yngri gefur hann ekkert eftir.

Til margra ára hefur Dóri verið mættur á Garðavöll snemma að vori til að hjálpa til við að koma vellinum í stand fyrir opnun. Það er þó bara byrjunin, því hann mætir reglulega upp í vélaskemmu, hoppar í vinnugallann sinn og finnur sér verkefni.

Handtökin eru mörg á Garðavelli á hverju sumri og á Dóri stóran þátt í því hversu vel hefur tekist til.“