Það stendur mikið til í kvöld þegar Útsvarslið Skagamanna keppir gegn Sandgerði í þessari vinsælu spurningakeppni á milli bæjarfélaga. Vilborg Þórunn Guðbjartsdóttir, Gerður Jóhannsdóttir og Örn Arnarson hafa staðið sig með prýði í keppninni fram til þessa og er við engu öðru að búast í kvöld. Skagafréttir spjallaði við Vilborgu um keppnina í kvöld.
Hvernig hafið þið hagað undirbúningnum?
„Við horfum ekki á Útsvarsþættina svona ,,live“, heldur hittumst einu sinni í viku og horfum saman á þáttinn sem var í vikunni á undan. Við reynum okkur við spurningarnar, og æfum leikinn og orðaruglið sem Valgarður Lyngdal Jónsson símavinur sér um að setja upp fyrir okkur. Það er algjört lottó hvaða spurningar við fáum, en það er hægt að æfa látbragðsleikinn og „strategíur“ í orðaruglinu og við leggjum því áherslu á þetta tvennt. Enda hellingur af stigum þar,“ segir Vilborg en hún bætir því við að blanda af spennufíkn og skorti á getu til að segja nei hafi orðið til þess að hún sé í Útsvarsliði Akraness.
„Það er gaman að prófa svona hluti, við erum búin að fylgjast með þátttunum í mörg ár og „besservissast“ heima í stofu. Okkur fannst bara spennandi að fá tækifæri til að láta á það reyna hvort við vitum eitthvað að ráði þegar á hólminn er komið. Ég er ekkert sérstakt spurningaþáttanörd, en hef þó gaman af þessu. Innan heilbrigðismarka þó.“
Það er gaman að prófa svona hluti, við erum búin að fylgjast með þátttunum
í mörg ár og „besservissast“ heima í stofu.
Þekkingin hjá hópnum er mjög breiður og segir Vilborg að þau hagi undirbúningnum með ýmsum hætti.
„Við höfum kannski engin sérsvið, en það vill svo til að „trivial“ þekking okkar þriggja okkar liggur á nokkuð breiðu sviði. Í undirbúningnum leggjum við upp með að hvert og eitt styrki sig þar sem viðkomandi er sterkur fyrir og áhugasviðið liggur. Rifja upp frekar en að læra eitthvað frá grunni.
Skemmtilegast við Útsvarið er spennan sem fylgir þessu, og áskorunin sem felst í því að koma fram í beinni. Við leggjum mikið upp úr því að hafa gaman af þessu og stressum okkur ekki um of á því hvort við vinnum eða töpum. Þetta er nú einu sinni skemmtiþáttur í sjónvarpi, ekki keppni upp á líf og dauða,“ sagði Vilborg við skagafrettir.is.
Skemmtilegast við Útsvarið er spennan sem fylgir þessu, og áskorunin sem felst í því að koma fram í beinni.