Nýtt gistiheimili í hjarta gamla miðbæjarins?

Frá því að gistiheimilið Stay West hætti rekstri í lok september árið 2022 hefur lítið framboð verið á gistingu fyrir ferðafólk á Akranesi. 

Framboðið gæti aukist á næstunni en umsókn hefur borist um rekstur gistiheimilis á jarðhæð í húsinu við Kirkjubraut 4-6 á Akranesi.

Málið var tekið fyrir á fundi Skipulags – og umhverfisráðs um miðjan desember á síðasta ári.

Ráðið fól skipulagsfulltrúa Akraness að vinna málið áfram.

Kirkjubraut 4-6 er í eigu Daníels Daníelssonar – en þar var Nína verslun til húsa þar til verslunin flutti í nýrra húsnæði við Kirkjubraut 12 í mars 2019.

Í umsókninni, sem er frá AI hönnun fyrir hönd eigenda Daníels Daníelssonar, kemur fram að óskað er eftir stækkun lóðar Kirkjubrautar 4-6 og minnkun á lóð við Suðurgötu 67.

Í desember árið 2021 samþykkti bæjarráð Akraness  rekstrarleyfi fyrir gistiheimil á efri hæð Stillholts 23 – þar sem gert er ráð fyrir gistingu fyrir 26 gesti. Það gistiheimili hefur enn ekki verið opnað.