Karlalið ÍA í körfubolta heldur áfram sigurgöngu sinni í næst efstu deild Íslandsmótsins. Skagamenn gerðu góða ferð á Akureyri í gær þar sem liðið sigraði Þór með 100 stigum gegn 86.
Þetta var sjötti sigurleikur ÍA í röð og sá áttundi af síðustu tíu.
Brasilíumaðurinn Victor Bafutto var atkvæðamestur í liði ÍA í gær en hann skoraði 16 stig og tók 16 fráköst. Miðherjinn öflugi er frákastahæsti leikmaður deildarinnar. Kristófer Már Gíslason, sem kom til ÍA frá Skallagrím fyrir þetta tímabil, var stigahæstur með 20 stig.
ÍA er í næst efsta sæti deildarinnar og er í góðri stöðu um laust sæti í efstu deild, Subway deildinni á næsta tímabili.
ÍA er með 22 stig að loknum 14 umferðum en liðið hefur unnið 11 leiki og aðeins tapað 3 leikjum það sem af er. Hamar frá Hveragerði er í efsta sæti með 24 stig en Hamar hefur leikið einum leik meira en ÍA.
Næsti leikur ÍA er gegn liðið Skallagríms úr Borgarnesi. Sá leikur fer fram föstudaginn 31. janúar í íþróttahúsinu við Vesturgötu. Skallagrímur er í næst neðsta sæti deildarinnar með 3 sigra og 11 tapleiki.