Á undanförnum misserum hefur farið fram rannsókn á svæði á Akranesi sem kallað er „Neðri Skaginn“ en rannsóknin fór fram vegna ábendinga um mögulega hátt grunnvatnsborð á svæðinu.
Jóhann Örn Friðsteinsson frá Verkís kynnti á fundi með skipulags – og umhverfisráðs Akraness niðurstöður Verkís. Í september árið 2023 var einnig greint frá niðurstöðum rannsókna á þessu svæði af sama tilefni. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá hvaða svæði var rannsakað.
![](https://skagafrettir.is/wp-content/uploads/2025/02/hakot-1920x1136-1-1132x670.jpeg)
Helstu niðurstöður eru:
„Niðurstaða mælinga sýna að grunnvatnshæð er nokkuð stöðug á svæðinu og ekki er sjáanleg hækkun á grunnvatnsyfirborði. Árstíðarbreytingar eru sjáanlegar á hitastigi þar sem það lækkar yfir vetrarmánuðina. Í tveimur holum, G-02 og G-09 koma skyndilegar lækkanir í hitastigi grunnvatns á svipuðum tímabilum um vetur, talið er að þetta orsakist af áhrifum frá snjó og snjóbráð þar sem kaldara vatn matar grunnvatnskerfið. Ekki eru sjáanleg merki um óeðlilegar hækkanir á hitastigi eða innstreymi á heitu vatni. Rannsóknir við Krókalón benda til þess að fylling undir göngustígnum er lekari enn náttúrulegt efni á svæðinu og því veitir efnið í fyllingunni vatni betur og þar af leiðandi fellur grunnvatnshæð í norður. Ekki eru sjáanleg merki um hækkun grunnvatns á Neðri Skaga á því tímabili sem mælingar fóru fram.
Árið 2023 var niðurstaða rannsókna að há grunnvatnsstaða sumarið 2023 hafi vera vegna mikillar úrkomu fyrri hluta ársins 2023. Síðast mældist meiri úrkoma á þessu tímabili árið 2017 og þar á undan árið 2012.