Nýverið óskaði eigandi að húsinu við Kirkjubraut 4-6 eftir leyfi til þess að breyta húsnæðinu í gistiheimili.

Erindið var tekið fyrir á fundi Skipulags – og umhverfisráðs í annað sinn þann 5. febrúar s.l. og þar var ákveðið að gefa ekki leyfi fyrir gistiheimili í þessu húsnæði. Rökstuðingur ráðsins er hér fyrir neðan.

„Markmið deiliskipulags Akratorgsreit er m.a. að styrkja og endurvekja mikilvægan kjarna í bæjarmyndinni. Eitt af meginatriðum í deiliskipulaginu er að gert sé ráð fyrir alhliða miðbæjarstarfsemi á jarðhæð og íbúðum á efri hæðum (og þá gistiheimili sem er ákveðið form íbúðarrýmis). Breytingin í gistirými á jarðhæð getur því ekki talist vera í samræmi við markmið núverandi deiliskipulags og jafnframt telst ekki viðeigandi starfsemi á jarðhæð í miðbæ.
Umsóknin nær ekki að vinna úr markmiðum og heimildum á viðeigandi hátt og að ná fram meginmarkmiðum Aðalskipulags Akraness og núverandi deiliskipulags Akratorgsreits. Skipulags- og umhverfisráð hafnar því umsókninni.“

Málið var fyrst tekið fyrir á fundi Skipulags – og umhverfisráðs um miðjan desember á síðasta ári. Og var skipulagsfulltrúa Akraness falið að vinna málið áfram.

Kirkjubraut 4-6 er í eigu Daníels Daníelssonar – en þar var Nína verslun til húsa þar til verslunin flutti í nýrra húsnæði við Kirkjubraut 12 í mars 2019.

Eins og staðan er á Akranesi núna þá er eitt gistiheimili í rekstri við Stillholt þar sem leyfi er fyrir 26 einstaklingum í gistingu.