112 dagurinn fer fram víða um land þriðjudaginn 11. febrúar.
Markmið dagsins er að minna á þetta mikilvæga neyðarnúmer ásamt því að þakka neyðarvörðum og öðrum viðbragðsaðilum fyrir þeirra ómetanlegu störf. Þetta kemur fram í tilkynningu.
![](https://skagafrettir.is/wp-content/uploads/2025/02/Untitled-design-1-1-1132x670.png)
Dagsetningin 11.2. er táknræn og hjálpar landsmönnum að muna þetta lífsnauðsynlega númer.
Rauði Kross Íslands útnefndir skyndihjálparmanneskju ársins og Landssamband slökkviliðs og sjúkraflutningamanna veitir verðlaun í árlegri eldvarnargetraun sinni.
Þema 112 dagsins árið 2025 er „Börn og öryggi“. Börn gegna lykilhlutverki í forvörnum og öryggismálum með því að vera góðar fyrirmyndir í daglegu lífi, til dæmis með því að nota endurskinsmerki, hjólahjálm og spenna bílbelti. Þau minna einnig fullorðna á að vera ekki í símanum við akstur og eru frábærir innhringjendur þegar þau þurfa að hringja í Neyðarlínuna. Í leik- og grunnskólum landsins eru börn einnig aðstoðarmenn slökkviliðs, þar sem þau læra mikilvæga þætti í eldvörnum og öryggi.
Víða um landið verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá í tilefni dagsins. Á Akranesi verður opið hús hjá Slökkviliði Akranes og Hvalfjarðasveitar frá kl. 17-19. Til sýnist verður sá búnaður sem slökkviliðið notar við störf sín. Þar má nefna nýja körfu- og dælubíla stöðvarinnar.
Það verður að sjálfsögðu heitt á könnunni, hlökkum til að sjá sem allra flest.