Bæjarstjórn Akraness hefur samþykkt breytingu á deiliskipulagi Dalbrautarreits norður. 

Gert er ráð þriggja til fimm hæða íbúðarbyggð við Þjóðbraut 9, 11, 13 og 13a, og Dalbraut 10, 14 og 16. Á þessu svæði er gert ráð fyrir að 120-150 íbúðir verði byggðar, og flestar þeirra verða um 100 fermetrar að stærð. 

Meginhluti bygginga verður randbyggð umhverfis inngarð.  Heimilt verður að hafa atvinnustarfsemi á jarðhæðum Þjóðbrautar 9 og 11, sem snúa að Þjóðbraut. 

Margar byggingar sem eru nú þegar á svæðinu verða fjarlægðar. Má þar nefna Skútuna, dekkjaverkstæði N1, nýverandi hús fyrir sjúkraflutninga verður fjarlægt, ásamt iðnaðarhúsnæði við Dalbraut og Esjubraut. 

Húsið við Þjóðbraut 13 mun standa áfram en þar er lögreglustöð bæjarins á neðri hæðinni og félagsmiðstöðin HvítaHúsið / Arnardalur er á efri hæðinni. 

Þrjár athugasemdir bárust vegna fyrirhugaðra breytinga. 

Andrés Ólafsson, íbúi við Dalbraut 25, sendi ítarlegt erindi með ýmsum spurningum um fyrirhugaðar framkvæmdir. Andrés telur að kjörnir fulltrúar íbúa sveitarfélagsins hafi ekki unnið þetta verkefni í sátt við nærsamfélagið. Hann gerir einnig kröfu um að Akraneskaupstaður beri ábyrgð á, ef tjón verður á íbúðarhúsum eða öðrum eignum „handan“ Dalbrautar sem orsakast vegna framkvæmda í framhaldi af breyttu skipulagi á Dalbrautarreit norður. 

Nánar má lesa hvaða skoðanir Andrés hefur á þessu máli með því að smella hér:

Jón Bjarni Gíslason, sem er íbúi við Dalbraut 45, gerir alvarlegar athugasemdir við þessa skipulagstillögu og skorti á samráði við íbúa í nærsamfélaginu við fyrirhugaðar byggingar. Hann hefur einnig áhyggjur af skemmdum á eigin húsnæði vegna fyrirhugaðra framkvæmda, skuggavarpi og hárri stöðu á gólfi í væntanlegri byggingu við Dalbraut 14. 

Nánar má lesa hvaða skoðanir Jón Bjarni hefur á þessu máli með því að smella hér.

Nánari upplýsingar eru í hlekkjunum hér fyrir neðan. 

Hér er einföld mynd af því byggingamagni sem gert er ráð fyrir á nyrsta svæðinu á byggingareitnum. Húsið með hvíta þakinu efst á myndinni er Þjóðbraut 13 – þar sem að lögreglustöðin er til húsa ásamt Arnardal /Hvítahúsinu. Öll önnur mannvirki sem eru á þessu svæði í dag verða fjarlægð. 

Þetta hús við Esjubrautina mun hverfa – en þar var lengi vel Trésmiðja Sigurjóns og Þorbergs, en í dag eru þar ýmis fyrirtæki með starfssemi. Til vinstri er bakhliðin á lögreglustöðinni. 

Þetta iðnaðarhúsnæði við Dalbraut 49 mun einnig verða fjarlægt samkvæmt þeim tillögum sem liggja fyrir um skipulag svæðisins. 

Hér má sjá yfir svæðið sem á að byggja upp á Dalbrautarreitnum frá norðri til suðurs.  Húsin fjögur sem eru efst á myndinni í litaða reitnum eru þegar risinn eftir á að byggja sex fjölbýlishús til viðbótar á þessum reit – eins og sjá má. Mynd/Akraneskaupstaður.