Svo gæti farið að eldra íþróttahúsið við Jaðarsbakka verði nýtt sem aðstaða fyrir líkamsrækt.
Á næstunni verður nýtt íþróttahús tekið í notkun við Jaðarsbakka og þar er gert ráð fyrir nýrri lyftingaaðstöðu fyrir afreksíþróttir hjá ÍA.

Ekki er gert ráð fyrir að almenningur fái aðgengi að þeirri aðstöðu.
Íþróttakennsla í Grundaskóla mun alfarið færast yfir í nýja íþróttahúsið þegar það verður tilbúið og æfingar hjá þeim félögum sem hafa verið með aðstöðu í gamla húsinu fara einnig yfir í það nýja.
Aðstaða fyrir Klifurfélag Akraness verður ekki sett upp í gamla salnum – eins og rætt hafði verið um, og verður Klifurfélagið áfram með sína aðstöðu á Smiðjuvöllum.
Akraneskaupstaður hefur séð um rekstur á líkamsræktaraðstöðunni sem er til staðar á efri hæðinni í gamla íþróttahúsinu við Jaðarsbakka.
Íþróttabandalag Akraness byggði upp þá aðstöðu og sá um reksturinn í fjölmörg ár – en í fyrstu var þessi aðstaða fyrst og fremst ætluð fyrir iðkendur hjá ÍA.
Í mörg ár hefur þessi aðstaða verið opin fyrir almenning en eins og áður segir verður ekki boðið upp á líkamsræktaraðstöðu fyrir almenning í nýja íþróttahúsinu.
Í nýjustu fundargerð skóla – og frístundaráðs Akraness kemur fram að aðili hafi sýnt því áhuga á að setja upp aðstöðu fyrir líkamsrækt í eldra íþróttahúsinu á Jaðarsbökkum. Ekki kemur fram hvaða fyrirtæki eða einstaklingur hafi sýnt þessu áhuga.
Ólíklegt má telja að Akraneskaupstaður verði áfram í því hlutverki að sjá um rekstur á líkamsrækt fyrir almenning.
Gögn um tilboð í leigu hafa verið lögð fram fyrir ráðið og næsta skref í stjórnsýslunni er að málið fá afgreiðslu hjá bæjarráði – og í framhaldinu hjá bæjarstjórn.