Akraneskaupstaður hefur ákveðið að íþróttahúsið við Jaðarsbakka verði nýtt sem aðstaða fyrir líkamsrækt – og nafnið Bragginn er nú notað um húsið í tilkynningu frá Akraneskaupstað.
Akraneskaupstaður hefur sent út tilkynningu þar sem bærinn óskar eftir tilboðum í leigu á bragganum við Jaðarsbakka, þar sem stefnt er að rekstri öflugrar líkamsræktarstöðvar. Um er að ræða um 2.000 fermetra húsnæði sem losnar haustið 2025, þegar núverandi starfsemi flyst í nýtt íþróttahús á svæðinu.

Í tilkynningunni kemur fram að mikil eftirspurn sé eftir veglegri líkamsræktaraðstöðu á Akranesi, og því er skilyrði að rekstraraðili nýti húsnæðið undir slíka starfsemi. Markmiðið er að skapa aðlaðandi og fjölbreytta aðstöðu fyrir hreyfingu og heilbrigðan lífsstíl sem þjónar þörfum íbúa svæðisins.
Í fundargerð bæjarstjórnar kemur fram að fyrirhugaðar breytingar á Jaðarsbakkasvæðinu séu enn á dagskrá – en gert er ráð fyrir innilaug þar sem að „Bragginn“ er staðsettur í dag. Fjármagn fyrir byggingu á nýrri sundlaug er ekki í fjárhagsáætlun bæjarsins út árið 2028.
Á næstunni verður nýtt íþróttahús tekið í notkun við Jaðarsbakka og þar er gert ráð fyrir nýrri lyftingaaðstöðu fyrir afreksíþróttir hjá ÍA.
Ekki er gert ráð fyrir að almenningur fái aðgengi að þeirri aðstöðu.
Íþróttakennsla í Grundaskóla mun alfarið færast yfir í nýja íþróttahúsið þegar það verður tilbúið og æfingar hjá þeim félögum sem hafa verið með aðstöðu í gamla húsinu fara einnig yfir í það nýja.
Aðstaða fyrir Klifurfélag Akraness verður ekki sett upp í gamla salnum – eins og rætt hafði verið um, og verður Klifurfélagið áfram með sína aðstöðu á Smiðjuvöllum.
Akraneskaupstaður hefur séð um rekstur á líkamsræktaraðstöðunni sem er til staðar á efri hæðinni í gamla íþróttahúsinu við Jaðarsbakka.
Íþróttabandalag Akraness byggði upp þá aðstöðu og sá um reksturinn í fjölmörg ár – en í fyrstu var þessi aðstaða fyrst og fremst ætluð fyrir iðkendur hjá ÍA.
Í mörg ár hefur þessi aðstaða verið opin fyrir almenning en eins og áður segir verður ekki boðið upp á líkamsræktaraðstöðu fyrir almenning í nýja íþróttahúsinu.