Notendaráðs um málefni fatlaðs fólks á Akranes lýsir yfir vonbrigðum með þá stöðu sem komin er upp vegna virkniverkefnisins „Saman á Skaga“  – en ekki er gert ráð fyrir fjármagni í verkefnið í fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar. 

Ráðið bendir á að ekki sé samhljómur hjá kjörnum fulltrúum Akraneskaupstaðar og embættismönnum bæjarfélagsins varðandi skýringar á því hvað fór úrskeiðis í meðferð málsins. 

Eins og áður hefur komið fram á skagafrettir.is í byrjun febrúar fékk þróunarverkefnið „Saman á skaga“ ekki fjármagn á árinu 2025 en verkefnið hafði verið í gangi frá árinu 2019.

Þar hefur áherslan verið að efla félagslega virkni, draga úr einangrun hjá fullorðnum fötluðum og veita þeim fjölbreyttari tækifæri til tómstundaiðkunar.

Notendaráðið harmar einnig vinnubrögð Akraneskaupstaðar eftir að í ljós kom að ekki er fjárveiting til verkefnisins. 

Í stað  þess að kynna málið rækilega fyrir þeim viðkvæma hópi sem þarna á í hlut er  hann skilinn eftir í fullkominni óvissu um framhaldið. Í því ljósi skorar ráðið á  Bæjarstjórn Akraness að eyða nú þegar þeirri óvissu sem ríkir um málið með  úthlutun fjármuna til verkefnisins af öðrum gjaldaliðum fjárhagsáætlunar. 

Bókun ráðsins er í heild sinni hér fyrir neðan: 

  1. 2407138 – Saman á skaga 2024 

Virkniverkefnið Saman á skaga hefur undanfarin ár verið starfrækt með fjármagni  frá ríkinu fyrst um sinn og síðan Akraneskaupstað og verið unnið gegn  verktakagreiðslum af nokkrum aðilum. Bókað var í Velferðar- og mannréttindaráði  árið 2023 að gera þyrfti ráð fyrir fjármagni að upphæð kr. 2.5 milljónir fyrir  verkefnið á árinu 2024 í fjárhagsáætlun. Að sama skapi var óformlega rætt um að  næstu ár yrðu með svipuðum hætti. Í aðdraganda fjárhagsáætlunar 2025 var gert  ráð fyrir fjármagni til að halda verkefninu áfram og beiðni þess efnis sett inn í  fjárhagsáætlunargerð. Sú hækkun skilaði sér ekki inn á viðeigandi lykil.  Á fund Velferðar- og mannréttindaráð 21. janúar sl. staðfesti ráðið að ekki fékkst  fjármagn í verkefnið í fjárhagsáætlunargerð fyrir 2025. Ráðið leggur áherslu á að  frístundastarfi fatlaðs fólks verði fundinn viðeigandi vettvangur innan  bæjarfélagsins.  


Kristinn Hallur Sveinsson formaður velferðar- og mannréttindaráð, Einar  Brandsson og Aníta Eir Einarsdóttir ráðsmenn í velferðar- og mannréttindaráði  mæta til umræðna við notendaráð um málefnið.

Notendaráð lýsir yfir vonbrigðum með stöðu þessa máls. Ekki síst vegna þess að  svo virðist sem ekki sé samhljómur milli kjörinna fulltrúa í velferðar- og  mannréttindaráði annars vegar og embættismanna bæjarfélagsins hins vegar um  hvað fór í raun úrskeiðis í meðferð málsins við gerð fjárhagsáætlunar. Einnig eru  vinnubrögð eftir að í ljós kom að ekki er fjárveiting til verkefnisins hörmuð. Í stað  þess að kynna málið rækilega fyrir þeim viðkvæma hópi sem þarna á í hlut er  hann skilinn eftir í fullkominni óvissu um framhaldið. Í því ljósi skorar ráðið á  Bæjarstjórn Akraness að eyða nú þegar þeirri óvissu sem ríkir um málið með  úthlutun fjármuna til verkefnisins af öðrum gjaldaliðum fjárhagsáætlunar.