Uppbygging búsetukjarnans við Skógarlund 42 hefur stöðvast vegna fjárskorts en þar var gert ráð fyrir búsetuúrræði fyrir fatlað fólk.
Notendaráð um málefni fatlaðs fólks á Akranesi fór yfir þetta mál á síðasta fundi sínum og telur ráðið að mörgum spurningum sé ósvarað varðandi þetta verkefni.

Fjártjón Akraneskaupstaðar gæti verið um 50 milljónir kr. og verkefnið sé komið á byrjunarreit eftir fjögurra ára undirbúning.
Ráðið leggur til að gerð verði rannsókn á stjórnsýslunni sem tengist þessu verkefni.
Fjallað hefur verið um tafir á þessu verkefni á Skagafréttir – sjá þessar tvær fréttir fyrir neðan.
Verktaki lýsir yfir vonbrigðum með tafir en telur að ábyrgðin liggi einnig hjá Akraneskaupstað
Lýsa yfir vonbrigðum með tafir á uppbyggingu búsetukjarna fyrir fatlað fólk
Fundargerð Notendaráðsins er í heild sinni hér fyrir neðan:
Fyrir tekið:
- 2303217 – Brú hses – Skógarlundur 42, stofnframlag vegna íbúðakjarna 2023
Staðan á uppbyggingu búsetukjarnans við Skógarlund 42. Kristinn Hallur Sveinsson formaður velferðar- og mannréttindaráðs, Einar Brandsson og Aníta Eir Einarsdóttir ráðsmenn í velferðar- og mannréttindaráði mæta til umræðna við notendaráð um málefnið.
Fram kom að bygging íbúðakjarnans hafi stöðvast vegna fjárskorts framkvæmdaaaðila, Leigufélagsins Brúar hses og velferðar- og mannréttindaráð myndi ekki gera samning um leigu íbúða í kjarnanum líkt og fyrirhugað hafði verið. Væri stofnframlag Akraneskaupstaðar, rúmar 50 milljónir króna að öllum líkindum glatað og sömu sögu væri að segja um stofnframlag
Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar að fjárhæð tæpar 70 milljónir króna. Einnig kom fram að húsið lægi sem stendur undir skemmdum.
Notendaráð harmar mjög þá stöðu sem upp er komin í málinu. Uppbygging íbúðakjarnans sem hefur verið í undirbúningi í rúm fjögur ár er nú að nýju á byrjunarreit með tilheyrandi röskun og óvissu fyrir búsetuúrræði fatlaðs fólk á Akranesi að ógleymdu því mikla fjártjóni sem virðist blasa við bæjarfélaginu.
Notendaráðið telur mörgum spurningum ósvarað vegna þessa verkefnis, bæði í aðdraganda þess og einnig á meðan á framkvæmdum stóð, ekki síst vegna óljósra upplýsinga um stöðu málsins. Ráðið leggur því eindregið til við Bæjarstjórn Akraness að nú þegar fram fari stjórnsýslurannsókn á verkefninu í heild sinni.
Meðal atriða sem ráðið telur nauðsynlegt að varpa ljósi á má nefna eftirfarandi:
- Aðdragandi pólitískrar stefnumótunar um byggingu íbúðakjarnans. 2. Vinnulag og ákvörðun um lóðarval vegna byggingarinnar.
- Vinnureglur vegna vals á verktaka vegna byggingarinnar.
- Hvaða mat fór fram á þeim kostum sem til greina komu í eignar- og rekstrarformi íbúðakjarnans.
- Hvaða breytingar urðu á útliti, innra skipulagi og efnisvali hússins á undirbúnings- og byggingartíma.
- Hvernig var eftirliti háttað af hálfu Akraneskaupstaðar á framkvæmdatímanum, annars vegar til þess að tryggja mikla fjárhagslega hagsmuni sveitarfélagsins og hins vegar almennt byggingareftirlit.
- Hvaða kosti hefur sveitarfélagið í núverandi stöðu og hvernig voru þeir metnir.