„Aðstæðurnar sem sköpuðust í gær eiga sér ekki fordæmi á Akranesi og vekja okkur til umhugsunar um hvernig standa þarf að öryggi vegfarenda við Akraneshöfn og jafnvel víðar,“ segir í pistli sem birtur var í dag hjá Björgunarfélagi Akraness.
Tilefnið er slys sem varð í gær þar sem að stór alda hreif tvo menn og tvær bifreiðar í sjóinn. Annar mannanna var í bílnum þegar aldan fór yfir stóru bryggjuna og er maðurinn á gjörgæsludeild Landsspítalans.

Pistillinn er í heild sinni hér fyrir neðan.
„Um klukkan 8 í gærmorgun voru allir viðbragðsaðilar á Akranesi kallaðir út vegna slyss sem varð í Akraneshöfn þegar alda hreif tvo bíla og tvo menn með sér í sjóinn. Annar mannanna var í bílnum þegar aldan skall á honum og er viðkomandi á gjörgæslu.
Í framhaldinu var farið í aðgerðir að reyna að ná bílunum upp úr höfninni og hefur okkar fólk aðstoðað við þá vinnu. Aðgerðum var frestað í gær vegna veðurs og aðstæðna í höfninni. Mögulega verður þeim haldið áfram í dag.
Aðstæðurnar sem sköpuðust í gær eiga sér ekki fordæmi á Akranesi og vekja okkur til umhugsunar um hvernig standa þarf að öryggi vegfarenda við Akraneshöfn og jafnvel víðar.„