Knattspyrnumaðurinn góðkunni Karl Þórðarson sló draumahöggið í Bönkerinn – Innigolf á Akranesi miðvikudaginn 12. mars 2025.
Þetta kemur fram á fésbókarsíðu Bönkerinn – Innigolf.

Karl notaði nýja Lazrus hybrid kylfu í höggið en hann sló boltann ofaní í upphafshögginu á 17. braut á Cape Wickham Links vellinum.
Þetta er í annað sinn sem gestur í Bönkerinn – Innigolf slær draumahöggið á golfhring í Trackman golfhermi – en Einar Gíslason hefur einnig náð þessum árangri.
Þess má geta að hinn síungi kylfingur er fæddur árið 1955 og myndin er af honum sjálfum – og ekki breytt í AI eða Photoshop.
Karl hóf ferilinn í meistaraflokki með ÍA árið 1972 og lék hann með uppeldisfélaginu allt fram til ársins 1978. Hann fór í atvinnumennsku til Belgíu í desember árið 1978. Hann samdi síðar við franska úrvalsdeildarliðið árið 1981 og þar lék hann fram til ársins 1984.
Hann varð Íslandsmeistari með ÍA fimm sinnum, (1974, 1975, 1977, 1984, 1994), og tvívegis fagnaði hann bikarmeistaratitlinum með ÍA (1978, 1984).
Árið 1985 tilkynnti Karl að hann væri hættur sem leikmaður. Þremur árum síðar hóf hann að leika með ÍA á ný og hann hætti á ný árið 1991 þegar ÍA fór upp úr næst efstu deild.
Árið 1994 snérist honum hugur og hóf að leika með ÍA á ný og hann var hluti af liðinu sem fagnaði Íslandsmeistaratitlinum árið 1994.