Elsa Lára Arnardóttir er nýr skólastjóri Brekkubæjarskóla. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Akraneskaupstað. 

Arnbjörg Stefánsdóttir sagði upp störfum nýverið en hún hefur gegnt starfinu sem skólastjóri Brekkubæjarskóla í 19 ár. 

Um 460 nemendur eru í skólanum og starfsfólkið er um 100. 

Elsa Lára þekkir vel til innra starfs Brekkubæjarskóla – en hún hefur verið aðstoðarskólastjóri frá árinu 2019. 

Alls sóttu sjö um starfið, einn dró umsóknina til baka  og voru tveir umsækjendur boðaðir í viðtal. 

Tilkynningin er í heild sinni hér fyrir neðan. 

„Starf skólastjóra Brekkubæjarskóla var auglýst laust til umsóknar þann 14. mars 2025 og bárust alls 7 umsóknir um starfið, einn dró umsókn sína til baka. Eftir yfirferð umsókna með tilliti til hæfniskrafna var ákveðið að boða tvo umsækjendur í viðtal. Skipuð var ráðninganefnd sem sá um viðtalsferlið, í henni sátu: Dagný Hauksdóttir sviðsstjóri mennta- og menningarsviðs, Harpa Hallsdóttir, mannauðsstjóri Akraneskaupstaðar, Þórður Guðjónsson, fulltrúi skóla- og frístundaráðs og Gunnar Gíslason, ráðgjafi.

Að loknum viðtölum og yfirferð á öllum gögnum var það mat ráðninganefndar að Elsa Lára Arnardóttir væri hæfust til að gegna starfinu.

Elsa Lára er með B.ed. í grunnskólakennarafræðum frá Kennaraháskóla Íslands með áherslu á íslensku og upplýsingatækni. Auk þess er hún með MLM gráðu í forystu og stjórnun frá Háskólanum á Bifröst með áherslu á verkefnastjórnun og mannauðsstjórnun.

Elsa Lára hefur víðtæka starfsreynslu og hefur frá árinu 2000 starfað í Brekkubæjarskóla, fyrst sem skólaritari, svo sem kennari þar frá árinu 2006 og sem skólastjórnandi frá árinu 2019. Frá þeim tíma hefur hún gegnt stöðu aðstoðarskólastjóra og verið staðgengill skólastjóra.

Arnbjörg Stefánsdóttir, fráfarandi skólastjóri, hefur stýrt skólastarfi í Brekkubæjarskóla af alúð síðustu 20 ár. Við þökkum henni innilega fyrir hennar dýrmæta framlag í þágu skólans.

Við óskum Elsu Láru innilega til hamingju með nýtt og spennandi hlutverk sem skólastjóri Brekkubæjarskóla. Hún tekur við leiðtogahlutverki sem hún þekkir vel, í skólasamfélagi þar sem samstarf, samheldni og metnaður einkenna bæði starfsfólk og nemendur.“

  • Skagafréttir hafa á undanförnum átta árum beint kastljósinu að mannlífinu á Akranesi og flutt mörg þúsund fréttir af Skagamönnum nær og fjær.
  • Bæjarfréttamiðill sem er opinn fyrir alla er ekki sjálfsagður hlutur.
  • Hefur þú tök á því að styðja við bakið á fréttamiðlinum okkar?