Tæplega 60 kylfingar eru skráðir til leiks í „vetrarmótaröð“ Golfklúbbsins Leynis sem fram fer á laugardaginn á Garðavelli. Vetrarmótaröðin stendur hinsvegar alls ekki undir nafni því völlurinn er iðagrænn og nýsleginn. Ástandið er afar sérstakt þar sem að leikið verður inn á sumarflatir og af sumarteigum 18. febrúar. Eins og flestir vita hefur veðurfarið verið óvenjulegt að undanförnu og hlýtt loft leikið um Skagamenn flesta daga. Brynjar Sæmundsson vallarstjóri Garðavallar segir á fésbókarsíðu klúbbsins að ástand vallarins sé eins og að vori.
„Nokkrar flatir voru slegnar miðvikudaginn 15. febrúar, og hefur slíkt ekki gerst áður. Vissulega er gróðurinn viðkvæmur og vel má búast við frosti og vetrarveðri áður en hið eiginlega vor gengur í garð. En þar sem sól hækkar hratt á lofti þá er ástæða til að vera bjartsýnn á snemmbúna opnun Garðavallar þetta golftímabilið,“ segir Brynjar í viðtalinu.