Sundfélag Akraness sendi nýverið erindi til Akraneskaupstaðar þar sem óskað var eftir svörum varðandi nýja sundlaug á Jaðarsbakkasvæðinu.
Kjell Wormdal, yfirþjálfari Sundfélagsins segir að núverandi aðstaða félagsins við Jaðarsbakka og Bjarnalaug uppfylli ekki þarfir félagsins. Og töluverð óvissa sé um framtíðarstaðsetningu nýrrar sundlaugar með tilkomu World Class í gamla íþróttahúsið við Jaðarsbakka.

„Akraneskaupstaður gaf það út árið 2019 að ný 50 metra sundlaug, ásamt kennslulaug, yrði byggð þar sem að gamla íþróttahúsið við Jaðarsbakka stendur í dag. Þetta átti að gera í framhaldi af byggingu á nýju íþróttahúsi við Jaðarsbakka. Ef ætlunin er að hefja framkvæmdir árið 2028 er töluverð óvissa sem fylgir því að World Class hefur leigt gamla íþróttahúsið til næstu 3ja ára með möguleika á 2 ára framlengingu á þeim samningi.
Með ört vaxandi íbúafjölda á Akranesi hefur aðgengi almennings verið skert og uppfylla núverandi laugar hvorki þarfir Sundfélagsins hvað varðar æfinga- og keppnisaðstöðu né þarfir yngri barna til kennslu og þjálfunar, þar sem sérstaklega Bjarnalaug er mjög þétt setin,“ segir Kjell við Skagafréttir.
Í svari skipulags- og umhverfisráð kemur fram að ráðið skilur vel þær áhyggjur sem Sundfélagið hefur. Ráðið bendir hins vegar á að gert er ráð fyrir uppbyggingu sundlaugar á Jaðarsbakkasvæðinu, það hafi ekki breyst.
„Ákvörðun um tímasetningu á uppbyggingu innviða er tekin ár hvert samhliða fjárhagsáætlunargerð. Fyrirhugaðir eru vinnufundir bæjarstjórnar á næstu vikum um þau verkefni til næstu 5 ára þar sem málin skýrast betur,“ segir m.a. í svari ráðsins.
- Skagafréttir hafa á undanförnum átta árum beint kastljósinu að mannlífinu á Akranesi og flutt mörg þúsund fréttir af Skagamönnum nær og fjær.
- Bæjarfréttamiðill sem er opinn fyrir alla er ekki sjálfsagður hlutur.
- Hefur þú tök á því að styðja við bakið á fréttamiðlinum okkar?