Sjúkraþjálfun Vesturlands opnaði í dag á Garðabraut 2 á Akranesi.

Leifur Auðunsson er stofnandi en hann mun starfa þar ásamt Helgu Eir Sigurðardóttur. Sigríður Elma Svanbjargardóttir mun bætast í hópinn á næstunni.

Leifur er frá Austur-Landeyjum en hann flutti á Akranes fyrir ári síðan og hann er ekki í vafa um að eftirspurn sé eftir þjónustu sjúkraþjálfara á Akranesi og á Vesturlandi.

„Ég er ekki með einfalt svar við því afhverju eftirspurnin sé svona mikil, það eru margvíslegar ástæður þar að baki. Samfélagið er alltaf að stækka en fjöldi sjúkraþjálfara hefur lítið breyst. Ef ég tek mið af þessu ári sem ég hef verið á Akranesi þá er staðan svipuð varðandi bið eftir því að fá þjónustu sjúkraþjálfara,“ segir Leifur við skagafrettir.is.

Eins og nafnið gefur til kynna þá horfir Leifur á allt Vesturland sem þjónustusvæðið og hann nefnir sem dæmi að í Borgarnesi séu biðlistar eftir þjónustu sjúkraþjálfara.

Leifur útskrifaðist árið 2021 sem sjúkraþjálfari frá Háskóla Íslands. Hann hóf í kjölfarið störf hjá Sjúkraþjálfun Íslands í Orkuhúsinu, og frá því hann flutti búferlum á Akranes með fjölskylduna fyrir ári síðan hefur Leifur einnig starfað hjá Sjúkraþjálfun Akraness.

„Það var alltaf markmiðið þegar við fjölskyldan fluttum á Akranes að setja á laggirnar sjúkraþjálfun og bæta við þjónustu sjúkraþjálfara hér í bæjarfélaginu og á Vesturlandi. Það má segja að þetta verkefni hafi farið aðeins fyrr af stað en ég hafði áætlað. Húsnæðið hér Garðabraut 2 datt óvænt upp í hendurnar í mér og ég varð því hrökkva eða stökkva.
Þessi ákvörðun er líka gerð í góðu samtali við fagaðila hér á Akranesi. Sjúkraþjálfun Akraness hefur meðal annars beint einstaklingum sem hafa verið hvað lengst á biðlistum til okkar. Við sem erum að starfa við þetta fag erum öll að vinna að sama markmiðinu. Að bæta lífsgæði fólks hér á Akranesi. Það er góð samvinna hjá okkur á þessu sviði.“

 

Aðstaðan fyrir viðskiptavini í húsnæðinu við Garðabraut 2 er björt og rúmgóð.

„Við erum með rúmlega 210 fermetra. Rýmið sem við erum í hefur tekið miklum breytingum með aðstoð góðs fólks. Það hefur vissulega tekið tíma að breyta húsnæðinu en mestur tími hefur farið í að skila inn gögnum til fjölmargra opinbera aðila – til þess að fá starfssemina samþykkta. Það eru gerðar miklar kröfur til þeirra sem starfa í heilbrigðisgeiranum – og þar má nefna að aðgengismál þurfa að vera í lagi

Hér er gott pláss fyrir allt að fjóra sjúkraþjálfara. Ég og Helga Eir verðum hér tvö til að byrja með. Undanfarnar vikur hafa farið í það að koma upp góðum búnaði s.s. þrektækjum, lóðum af ýmsum gerðum og stærðum, og við erum einnig með sal sem hentar vel fyrir hóptíma þjálfun. Það er hægt að taka salinn á leigu fyrir hóptíma. Við erum spennt fyrir framtíðinni og hlakkar mikið til að taka á móti viðskiptavinum hér í Sjúkraþjálfun Vesturlands,“ segir Leifur Auðunsson.

  • Skagafréttir hafa á undanförnum átta árum beint kastljósinu að mannlífinu á Akranesi og flutt mörg þúsund fréttir af Skagamönnum nær og fjær.
  • Bæjarfréttamiðill sem er opinn fyrir alla er ekki sjálfsagður hlutur.
  • Hefur þú tök á því að styðja við bakið á fréttamiðlinum okkar?