Jón Þór Hauksson mun stýra bikarmeistaraliði Vestra frá Ísafirði í síðustu þremur leikjum liðsins í Bestu deild Íslandsmóts karla í knattspyrnu.
Í gær var greint frá því að Davíð Smári Lamude þjálfari Vestra væri hættur en þrír leikir eru eftir í neðri hluta Bestu deildar. Stjórn Vestra ákvað að rifta samstarfinu við Davíð Smára.

Jón Þór þekkir vel til á Ísafirði en hann stýrði liði Vestra á síðari hluta keppnistímabilsins 2021 með góðum árangri. Undir hans stjórn endaði Vestri í 5. sæti Lengjudeildarinnar og liðið komst í undanúrslit bikarkeppni KSÍ.
Jón Þór tók við þjálfun karlaliðs ÍA árið 2022 og var þjálfari liðsins fram á mitt tímabil 2025 – þegar hann óskaði eftir að hætta störfum sem þjálfari karlaliðs ÍA
Vestri er tveimur stigum frá fallsæti þegar þrjár umferðir eru eftir.
Næstu þrír leikir liðsins eru gegn KA og Aftureldingu á útivelli og KR mætir á Ísafjörð í lokaumferðinni.