Karlalið ÍA í körfuknattleik mætir liði Þórs frá Þorlákshöfn fimmtudaginn 2. október í íþróttahúsinu við Vesturgötu.

Heimaleikir ÍA fara síðan fram í nýja íþróttahúsinu við Jaðarsbakka – þegar það verður tilbúið með áhorfendastúkum. 

Þetta er fyrsti leikur ÍA í Bónus deildinni, efstu deild Íslandsmótsins, en ÍA varð deildarmeistari í næst efstu deild á síðustu leiktíð. 

Skagamönnum er spáð falli samkvæmt spá forráðamanna og leikmanna, og einnig í spá frá fjölmiðlum. 

Lið ÍA er að mestu skipað leikmönnum sem hafa komið upp úr yngri flokka starfi félagsins eða leikmönnum sem hafa verið hjá félaginu undanfarin ár. Þrír erlendir leikmenn hafa bæst í hópinn á undanförnum vikum. 

Bandaríkjamaðurinn Darnell Cowart mun leika með ÍA á þessu tímabili. Hann hefur m.a. leikið með varaliði Memphis í Bandaríkjunum – í NBA G deildinni. Á síðustu leiktíð lék hann með liðinu KB Peje í Kosóvó þar sem hann skoraði 17 stig að meðaltali og tók 8 fráköst. 

Króatinn Josip Barnjak samdi einnig við ÍA en hann er 27 ára og getur leyst margar stöður fyrir ÍA. 

Gojko Sudzum verður einnig í herbúðum ÍA. Hann lék í Bosníu á síðustu leiktíð þar sem hann var stigahæstur og frákastahæstur með liðinu KK Jahorina Pale. Sudzum er rúmlega 2 metrar á hæð og verður í aðalhlutverki undir körfunni hjá nýliðum ÍA.