Hjónin Ingibjörg Indriðadóttir og Ragnar Fjalar Þrastarson fengu á dögunum viðurkenningu frá Akraneskaupstað fyrir tré ársins 2025.
Tré ársins stendur við hús þeirra, Jörundarholt 160.

„Fallegt og stæðilegt tré í skemmtilegu umhverfi sem setur svip á götumyndina nú og til frambúðar,“ segir í umsögn þegar verðlaunin voru afhent.
Ingibjörg segir í viðtali við Skagafréttir að tréð hafi verið gróðursett fyrir um 35 árum en samkeppni við stæðilega ösp hafi haldið ilmreyninum í skefjum allt fram til ársins 2013.
„Þessi Ilmreynir var gróðursettur af fyrri húseigendum Brynju Helgadóttur og Ingimar Magnússyni. Við heyrðum sögu um að hann væri kallaður Flökku-Reynir, þar sem hann hafi fyrst verið gróðursettur af Hrönn Harðardóttur og Andrési Helgasyni á Einigrund kringum 1990 en síðar fluttur í Jörundarholtið.
Þegar við kaupum húsið 2006, þá fór alls ekki mikið fyrir trénu. Það stóð í skugganum af stórri og stæðilegri ösp í garðinum hjá okkur og var hann orðinn hálf vesældarlegur og óx bara eins og pláss var fyrir hann undir aspargreinunum. Eftir að við felldum öspina kringum 2013, þá fékk ilmreynirinn loksins nægt pláss til að breiða úr sér í allar áttir og er nú orðinn að þessu yndislega fallega tré sem sómir sér vel í garðinum okkar,“ segir Ingibjörg við Skagafréttir.






