
Áætlun Akraneskaupstaðar hvað varðar fjárfestingar – og framkvæmdir næstu fjógur árin hefur verið til umræðu í bæjarráði og bæjarstjórn. Áætlunin verður lögð fram til samþykktar annað sinn á fundi bæjarstjórnar þann 9. desember n.k.
Í áætluninni, sem var samþykkt einróma í fyrri umræðu bæjarstjórnar, eru ýmis verkefni á dagskrá á næstu fjórum árum.
Stærsta framkvæmdin á næstu árum er ný Samfélagsmiðstöð á horni Stillholts og Dalbrautar en gert er ráð fyrir rúmlega 2400 milljónum kr. í þá framkvæmd á árunum 2028 og 2029.

Gert er ráð fyrir uppbyggingu á nýjum leikskóla í eldri bæjarhluta Akraness á árunum 2028 og 2029. Áætlunin gerir ráð fyrir um 850 milljónum kr. í þá framkvæmd og fjárfestingu.
Á árunum 2027 og 2028 er gert ráð fyrir um 525 milljónum kr. í framkvæmdir og fjárfestingar í Akraneshöllinni, knattspyrnuhúsinu. Það kemur ekki fram hvað á að gera í Akraneshöllinni en þakið þarfnast sannarlega viðgerðar.
Gert er ráð fyrir um 375 milljónum kr. í tvær leikskóladeildir sem verðar byggðar í Garðalundi, skógræktinni. Hugmyndin er að þessar deildir verði reknar sem skólasel frá einum eða tveimur af núverandi leikskólum, og framboð á leikskólaplássum myndi aukast til skemmri tíma. Framkvæmdin í Garðalundi er á áætlun 2026 og 2027.
Á árinu 2027 er gert ráð fyrir um 300 milljónum kr. í uppkaup á mannvirkjum til niðurrifs. Samkvæmt heimildum Skagafrétta er þar horft til Vesturgötu 119 (gamla Arctic húsið). Akraneskaupstaður hefur áhuga á að stækka svæðið fyrir skóla – og íþróttir á þessu svæði. Einnig er gert ráð fyrir að nýr leikskóli verði byggður í eldri hluta bæjarins. Horft er til Ægisbrautar varðandi þá byggingu. Nýr leikskóli yrði þá í næsta nágrenni við skóla – og íþróttamannvirki við Brekkubæjarskóla.
Ekki er gert ráð fyrir að uppbyggingu á nýjum knattspyrnuvelli eða sundlaug á Jaðarsbakka í áætluninni. Nýtt ráðhús við Sementsreit er ekki á áætluninni. Nýtt áhaldahús fær ekki brautargengi að þessu sinni.
Gert er ráð fyrir 40 milljóna kr. framkvæmd við stúku á Akranesvelli á næsta ári.
Haldið verður áfram að í viðhaldi á íþróttahúsinu við Vesturgötu fyrir 90 milljónir kr. á árunum 2026 og 2027.
Kaupa á nýjan dælu / tankbíl fyrir Slökkvilið Akraness og Hvalfjarðarsveitar ásamt endurnýjun á útbúnaði – og er gert ráð fyrir 80 milljónum kr. á næstu fjórum árum í þau kaup.
Að venju verða ýmsar framkvæmdir og fjárfestingar í innviðum kaupstaðarins. Nýframkvæmdir og viðhald gatna, gangstétta og skólalóðir eru þar fyrirferðamest – en gert er ráð fyrir um 1.150 milljónum í slíkar framkvæmdir á næstu fjórum árum.
Gert er ráð fyrir um 560 milljónum kr. í almennt viðhald á stofnunum Akraneskaupstaðar á næstu fjórum árum.












