Starfshópur, sem á að fjalla um framtíð skipulagsmála fyrir sund og fótbolta á Jaðarsbökkum, verður settur á laggirnar. Erindisbréf fyrir starfshópinn hefur verið samþykkt í skipulags – og umhverfisráði – og á bæjarráð eftir að fjalla um málið. 

Skiptar skoðanir eru um framtíðarsýn svæðisins og ýmsar hugmyndir hafa verið lagðar fram. Mikil vinna var lögð í hugmyndasamkeppni þar sem að baðlón, hótel og ný staðsetning knattspyrnuvallarins voru í brennidepli. 

Akraneskaupstaður skrifaði undir viljalýsingu í mars 2023. Þar var m.a. gert ráð fyrir hóteli, baðlóni og heilsulind á svæðinu. Gert var ráð fyrir íbúðabyggð þegar samkomulagið var undirritað en fallið hefur var frá þeirri hugmynd. Þrjár hugmyndir voru lagðar fram á íbúafundi í Bíóhöllinni þann 23. október 2023 – og í kjölfarið var samið við Basalt um deiliskipulagsvinnu út frá hugmynd fyrirtækisins. 

Hér getur þú kynnt þér tillögu frá Basalt um um framtíðaruppbyggingu á Jaðarsbakka

Áætlun Akraneskaupstaðar hvað varðar fjárfestingar – og framkvæmdir næstu fjógur árin hefur verið til umræðu í bæjarráði og bæjarstjórn. Áætlunin verður lögð fram til samþykktar annað sinn á fundi bæjarstjórnar þann 9. desember n.k.

Í áætluninni, sem var samþykkt einróma í fyrri umræðu bæjarstjórnar, eru ýmis verkefni á dagskrá á næstu fjórum árum. Ekki er gert ráð fyrir fjármagni í nýja sundlaug eða stóra uppbyggingu hvað varðar baðlón, hótel eða breytingu á vallarstæðinu á Akranesvelli á næstu fjórum árum.