
Stefnt er að því að stofna þörungakjarnasetur hjá nýsköpunarsetrinu Breið á Akranesi. Viljalýsing þess efnis hefur verið undirrituð en að baki verkefninu standa fjölmörg fyrirtæki, samtök og stofnanir
Í tilkynningu sem Breið sendi frá sér segir að kjarnanum sé ætlað að vera vettvangur þar sem þörungarannsóknir, sem og þróun og nýsköpun verði í forgrunni. Þar muni vísindamenn, fyrirtæki og frumkvöðlar vinna saman að því að efla þekkingu og verðmætasköpun á sviði þörunga.

„Verkefnið stuðlar að sjálfbærri nýtingu sjávarauðlinda og styrkir innviði fyrir þörungarannsóknir með áherslu á matvælaþróun, líftækni og kolefnisbindingu,“ segir í yfirlýsingunni. „Þörungakjarninn mun jafnframt stuðla að fræðslu og menntun í samstarfi við háskóla og rannsóknastofnanir og skapa vettvang fyrir þverfaglega samvinnu milli vísinda og atvinnulífs,“ segir í tilkynningu frá Breið þróunarfélagi.
Formleg stofnun Þörungakjarnans er nú þegar í ferli.

Tilgangur kjarnans kallar á sérhæfða aðstöðu fyrir ræktun, greiningar og smáframleiðslu þörunga en verkefnið verður unnið í samvinnu háskóla, rannsóknarstofnana og atvinnulífs. Stefnt er að því að Þörungakjarninn verði vettvangur fyrir menntun, þjálfun og rannsóknasamstarf.
Undir viljayfirlýsinguna skrifa Breið þróunarfélag, Samtök Þörungafélaga, Hafrannsóknastofnun, Matís, Landbúnaðarháskóli Íslands, Háskóli Íslands, Háskólinn á Hólum, Háskólinn á Bifröst, Sedna Biopack, North Seafood Solutions, Hyndla, Biopol, Marea, Norlandia og Gleipnir.
Einnig hefur sérstakt þörungaráð verið stofnað en það skipa, ásamt Valdísi frá Breið, Ragnheiður Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskólans, Jónas R. Viðarsson, sviðsstjóri rannsókna hjá Matís, Guðrún Rútsdóttir, lektor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands og Sara Harðardóttir, þörungafræðingur hjá Hafrannsóknastofnun.
Breið þróunarfélag er séreignarstofnun og samstarfsverkefni Akraneskaupstaðar og Brims hf. Félaginu er ætlað að efla atvinnutækifæri, nýsköpun og skapandi greinar á svæðinu. Í nýsköpunarsetri Breiðar eru samvinnu- og rannsóknarrými, skrifstofur og fundarherbergi, svo fátt eitt sé nefnt.


