Pétur Magnússon lét af störfum í dag sem forstjóri Reykjalundar. Skagamaðurinn hefur á undanförnum tveimur áratugum verið forstjóri á heilbrigðisstofnunum, fyrst á Hrafnistu í 12 ár og síðastliðinn 6 ár á Reykjalundi. 

Pétur er einn af mörgum úr 1971 árganginum á Akranesi sem kom Þorrablóti Akraness af stað, og brekkusöngurinn á Írskum dögum er einnig að frumkvæði „Club 71“ 

„Í fyrsta skipti á ævinni segi ég upp starfi án þess að vera fara í annað ákveðið starf. Ég mun vera á hliðarlínunni á Reykjalundi á næstunni en annars er framtíðin óskrifað blað og ég ætla bara að gefa mér góðan tíma til að meta málin. Ég á mörg áhugamál og fjölda vina sem ég vildi gjarnan geta sinnt betur og notið lífsins betur með. Ég veit því ekkert hvað framtíðn ber í skauti sínu og ekkert endilega víst að ég sækist eftir stjórnunarstörfum í efstu lögum heilbrigðisþjónustunnar áfram – það mun framtíðin bara leiða í ljós. Hér á Reykjalundi hafa það verð forréttindi og mikill heiður að vinna með því frábæra fólki sem hér starfar, sannkallað landslið í endurhæfingu eins og við segjum oft og starfsfólk stoðdeilda starfseminnar ekki síðra,“ segir Pétur m.a. í pistlinum sem hann birti á fésbókarsíðu sinni í dag.